Hafna kröfunni án rökstuðnings

Samkvæmt Félagi atvinnurekenda er um að ræða mikið hagsmunamál fyrir …
Samkvæmt Félagi atvinnurekenda er um að ræða mikið hagsmunamál fyrir neytendur. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Atvinnuvegaráðuneytið hefur hafnað kröfu þriggja innflutningsfyrirtækja um endurgreiðslu útboðsgjalds vegna tollkvóta á búvörum. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Félags atvinnurekenda.

Þar segir að í kjölfar þess að héraðsdómur Reykjavíkur felldi dóm þann 17. mars sl. um að útboðsgjaldið væri ólögmætur skattur sem bryti í bága við stjórnarskrá, hefði FA farið fram á það við atvinnuvegaráðuneytið að innflutningsfyrirtækjum yrði endurgreitt útboðsgjald sem greitt hefði verið fyrirfram vegna innflutningsheimilda sem enn hefðu ekki verið nýttar.

Fyrirtækin þrjú; Hagar, Sælkeradreifing og Innnes, fóru jafnframt fram á endurgreiðslu, en að því er fram kemur á vef FA hafa lögmenn fyrirtækjanna fengið nánast samhljóða bréf þar sem segir: „Ráðuneytið hafnar greiðslu til umbjóðanda yðar enda fellst ráðuneytið ekki á rökstuðning yðar í fyrrgreindu bréfi.“

Niðurstaðan er ekki rökstudd en lögmenn fyrirtækjanna hyggjast fara fram á rökstuðning. Erindi FA hefur ekki verið svarað.

„Það er með talsverðum ólíkindum að meira en mánuði eftir uppkvaðningu dóms, þar sem útboðsgjaldið er sagt ganga gegn stjórnarskránni, skuli atvinnuvegaráðuneytið hafna kröfu um endurgreiðslu án nokkurs rökstuðnings,“ er haft eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra FA, á vefsíðu félagsins.

„Enn og aftur blasir við fullkomið skeytingarleysi um hag neytenda, sem eiga mikið undir því að stjórnvöld fari að dómum dómsvaldsins í þessu máli. Innflutningsfyrirtækin munu að sjálfsögðu halda áfram að leita réttar síns. Verslunin bíður eftir því að geta lækkað verð til neytenda. Það eina sem stendur í vegi fyrir því er þvermóðska embættismanna sem geta ekki sætt sig við að neytendur fái að njóta þess ábata sem fylgir frjálsum viðskiptum.“

Frétt mbl.is: Ítreka kröfu um endugreiðslu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert