Tvöföldun og þreföldun í notkun bílastæðahúsa

Á planinu voru 198 bílastæði.
Á planinu voru 198 bílastæði. Morgunblaðið/Rósa Braga

Bílastæðaplaninu við Tollhúsið var lokað á fimmtudaginn en þar voru 198 bíla­stæði. Framkvæmdarleyfi hefur verið veitt fyrir fornleifauppgreftri á svæðinu en að hon­um lokn­um mun reit­ur­inn fara í upp­bygg­ingu og byggj­ast upp á næstu þrem­ur árum. Framkvæmdarstjóri Bílastæðasjóðs, Kolbrún Jónatansdóttir, segir að ekki hafi enn borist beinar kvartanir vegna lokunarinnar en gerir ráð fyrir því að þær muni skjóta upp kollinum fljótlega. Fjölmargar verslanir og veitingahús eru við bílaplanið.

„En það sem er frábært var að Kolaportið auglýsti töluvert bílastæðahúsin okkar um helgina og það var að skila sér. Það var tvöföldun í notkun í bílastæðahúsinu Kolaport við Seðlabankanna og þreföldun í bílastæðahúsinu við Vesturgötu. Þannig að fólk var alveg að bjarga sér,“ segir Kolbrún í samtali við mbl.is.

Bílastæðahúsin ódýrari en planið við Tollhúsið

Kolbrún segir það afskaplega ánægjulegt að sjá fjölgun í notkun bílastæðahúsanna. Hún segir að bílastæðahúsin séu yfirleitt notuð meira um helgar en að um þessa helgi hafi verið áberandi aukning.„Fólk byrjar yfirleitt alltaf á að leita að stæði úti og síðan fer það jafnvel að leggja ólöglega. En um helgina var ekki meira af stöðubrotum en venjulega en töluverð umferð þar sem fólk var að leita sér að stæðum.“

Að sögn Kolbrúnar er ódýrara að leggja í bílastæðahúsum miðborgarinnar en á bílastæðinu við Tollhúsið. Samkvæmt heimasíðu Bílastæðasjóðs kostar það 150 krónur að leggja í bílastæðahúsunum við Seðlabankanna, Vesturgötu og Traðarkot fyrsta klukkutímann. Hver klukkutími eftir það kostar 100 krónur. Opið er alla daga vikunnar í bílastæðahúsunum frá klukkan sjö til miðnættis. Planið við Tollhúsið féll undir gjaldsvæði 1 og kostaði því 230 krónur að leggja bíl þar í eina klukkustund.

Kolbrún gerir jafnframt ráð fyrir því að aukning hafi orðið í notkun bílastæðahússins undir Hörpunni. Sama gjald er þar og á bílastæðinu við Tollhúsið.

Alltaf 100% nýting um helgar

„En það er náttúrulega bagalegt að missa svona mörg stæði í miðborginni. Við réðum engu um þetta, við vorum með planið á leigu,“ segir Kolbrún.

Kolbrún er bjartsýn á að lokun plansins skapi ekki vanda í miðborginni þegar það kemur að bílastæðum. „Virka daga verður vandinn sjáanlegri og jafnvel slegist um stæðin sem eru úti á götu. En þá eru bílastæðahúsin til þjónustu reiðubúin.“

Kolbrún segir að planið við Tollhúsið hafi alltaf verið gífurlega mikið notað. „Um helgar var alltaf 100% nýting þarna. Ekki var jafn mikil nýting á virkum dögum en auðvitað er þetta mikill missir. En þetta er ekkert eina útiplanið á þessu svæði, það er stórt plan á Miðbakka við Hafnarhúsið og við gamla útvarpshúsið á Skúlagötu. Það er töluvert ódýrara að leggja þar heldur en við Tollhúsið.“

Planið við miðbakka fellur undir gjaldsvæði 2 og kostar því klukkustundin þar 125 krónur. Stæðið við Skúlagötu fellur undir gjaldsvæði 3 og kostar 85 krónur fyrsta og önnur klukkustundin en 20 krónur hver klukkustund eftir það.

Gjaldskyldutími á útibílastæðum miðborgarinnar er 9-18 á virkum dögum og 10-16 á laugardögum.

Fyrri fréttir mbl.is:

Hafa ekki áhyggjur af lokun stæðanna

Rútufyrirtæki kveður Kolaportsplanið

Framkvæmdir að hefjast við Tollhúsið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert