Ríkisstjórnin leggur skákinni lið

Ríkisstjórn Íslands.
Ríkisstjórn Íslands. mbl.is/Ómar

Ríkisstjórnin samþykkti í morgun að veita Skáksambandi Íslands fjárstyrk að upphæð 25 milljónir kr. af ráðstöfunarfé sínu til að standa straum af kostnaði við Evrópumót landsliða í skák sem haldið verður hér á landi 12. til 22. nóvember næstkomandi.

Árið 2012 voru kynnt áform Skáksambands Íslands um sækjast eftir því að halda Evrópumót landsliða í skák hér á landi og veittur tveggja milljóna króna styrkur af ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar til undirbúnings umsókninni og jafnframt að veita Skáksambandinu vilyrði fyrir stuðningi að upphæð allt að 20 – 25 milljónir króna á mótsárinu 2015.

Þar sem nú liggur fyrir að Evrópumótið verður haldið hér á landi á þessu ári samþykkti ríkisstjórnin á fundi sínum í morgun að veita Skáksambandinu fyrrgreindan styrk vegna mótsins.

„Það er fagnaðarefni að þessi stóri skákviðburður verður haldinn hér á landi og við væntum þess að það verði mikil lyftistöng fyrir skákíþróttina hér á Íslandi,“ er haft eftir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert