Eldur í sumarhúsi við Þingvelli

Eldur kviknaði í skúr við sumarbústað á Þingvöllum á níunda tímanum í kvöld. Fjölmennt lið slökkviliðsmanna fór strax á staðinn og búið er að ná tökum á eldinum. Engan hefur sakað og svo virðist sem að tjón hafi orðið minna en menn óttuðust í fyrstu.

Gufubað er í skúrnum sem er áfastur sumarhúsinu sem er í Miðfellslandi. Eldsupptök eru ókunn. 

Samkvæmt upplýsingum frá Brunavörnum Árnessýslu, hafði eigandi samband við Neyðarlínuna en hann óttaðist að eldurinn færi í aðalhúsið. Slökkviliðsmenn frá Laugarvatni og frá Selfossi fóru á vettvang. 

Slökkviliðsmennirnir frá Laugarvatni voru fyrstir á staðinn en þá var eigandinn langt kominn með að slökkva eldinn. Nú er verið að nota hitamyndavél til að athuga með hvort einhversstaðar liggi glóð í húsinu. 

Tilkynning um eldinn barst rétt fyrir klukkan 21 í kvöld. 

Ekki liggur fyrir hversu mikið tjón hefur orðið, en segja má að betur hafi farið en á horfðist í fyrstu, en menn óttuðust einnig að eldurinn næði að teygja sig í nærliggjandi gróður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert