Hreiðar Már: Ósmekklegasta spurningin

Hreiðar Már Sigurðsson, fv. forstjóri Kaupþings mætti fyrir héraðsdóm Reykjavíkur …
Hreiðar Már Sigurðsson, fv. forstjóri Kaupþings mætti fyrir héraðsdóm Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Hreiðar Már Sigurðsson, fv. forstjóri Kaupþings, segist aldrei hafa átt nein samskipti við starfsmenn eigin viðskipta bankans vegna kaupa á bréfum í bankanum sjálfum.

Í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings er ákært fyrir bæði kaup eigin viðskipta á bréfum í bankanum og svo að bankinn hafi selt sömu bréf áfram til þriðja aðila án þess að hafa nein veð nema bréfin sjálf.

Gaf aldrei fyrirmæli

Hreiðar mætti fyrir dóminn í dag, en þetta er þriðja vika aðalmeðferðar. Eftir langt og ítarlegt ávarp fyrir dóminn hóf saksóknari að spyrja Hreiðar um viðskipti eigin viðskipta. „Ég gaf aldrei fyrirmæli,“ sagði Hreiðar um viðskipti deildarinnar.

Hann tók reyndar fram að einhvern tímann hafi hann verið í samskiptum við einstaka starfsmann deildarinnar til að fá upplýsingar, en slíkt hafi verið mjög takmarkað.

Tapið aðeins 0,1% af eignum bankans

Saksóknari bar undir hann mynd sem sýndi fram á rúmlega 6 milljarða tap deildarinnar sem skýrðist mikið til af viðskiptum með bréf Kaupþings. Hreiðar sagði þetta tap ekki mikið í stóra samhenginu.

Benti hann á að eignir Kaupþings hafi verið 8.500 milljarðar. Eitt prósent af því er 85 milljarðar og sagði Hreiðar að þessi upphæð væri því ekki einu sinni 0,1% af eignum bankans. „Þó þetta sé há tala þurfum við að setja þetta í samhengi við rekstur Kaupþings,“ sagði hann.

Varð kjaftstopp undir spurningum saksóknara

Spurði saksóknari Hreiðar þá hvort fórnarkostnaðurinn hafi ekki verið frekar lítill og vísaði þar til ákæruefna um að deildin hafi verið að halda verið bankans uppi. Hreiðar og verjandi hans brugðust mjög illa við þessari spurningu.

„Ósmekklegasta spurning sem ég hef fengið,“ sagði Hreiðar varð hálf kjaftstopp þegar hann spurði hvort það væri tilgangur saksóknara að ljúga upp á sig. Bætti hann við „hverskonar spurning er þetta“ og spurði hvort hann ætti að þurfa að svara svona spurningum með skætingi. Saksóknari ákvað í framhaldinu að draga spurninguna til baka.

Hreiðar Már Sigurðsson í héraðsdómi í dag.
Hreiðar Már Sigurðsson í héraðsdómi í dag. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert