Hreiðar: Tengist ekki ákæruliðum

Hreiðar Már Sigurðsson í dómsal í morgun.
Hreiðar Már Sigurðsson í dómsal í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Í Al Thani málinu var logið upp á sakborninga og báðir dómstólar gerðu mistök við að taka málflutning saksóknara og dæmdu í málinu án haldbærra gagna. Þetta sagði Hreiðar Már Sigurðsson, fv. forstjóri Kaupþings, í ávarpi sínu í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings í dag.

Rifjaði Hreiðar upp að í Al Thani málinu hafi Hæstiréttur komist að því að félag Ólafs Ólafssonar hafi átt að njóta helmings hlutdeildar í viðskiptum með bréf Kaupþings á dögunum fyrir hrun. Sagði hann öll gögn málsins samt sem áður sýna fram á að félag Ólafs hafi ekki átt að njóta neinnar hlutdeildar. „Hæstiréttur kaus að líta fram hjá þessu,“ sagði Hreiðar.

Hreiðar var greinilega ekki sáttur með þessa niðurstöðu eða hvernig ákæruvaldið kæmi fram við hann. Fór hann í löngu máli yfir það hvernig hann tengdist ekki ákvörðunum sem ákært var í málinu, en tók einnig fram að hann teldi þau atriði ekki lögbrot og að íslenska ríkið væri að teygja sig langt í að koma sök á starfsmenn viðskiptabankanna, enda hefðu háar upphæðir verið settar til að rannsaka bankamál í kjölfar hrunsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert