Farþegar hvattir til að fylgjast með

mbl.is/Þórður

Isavia segir að fyrirhuguð verkföll muni að óbreyttu hafa einhver áhrif á ferðaþjónustuna. Fyrstu verkföll sem auglýst hafi verið muni ekki hafa bein áhrif á flugsamgöngur en ef deilur dragist á langinn gætu hafist verkföll sem hafa áhrif á nokkur fyrirtæki sem þjónusta flugfélög. 

Isavia hefur birt nánari útlistun á mögulegum áhrifum verkfalla á heimasíðu sinni. Farþegum er bent á að hafa samband við sitt flugfélag til að fá upplýsingar um sitt flug.

Yfirlit um möguleg áhrif áætlaðra verkfalla á flugsamgöngur:

  • Hópbifreiðafyrirtæki fara mögulega í verkfall frá kl 00:00 28. maí til 24:00 29. maí. Verkfallið gæti haft áhrif á rútuferðir til og frá Keflavíkurflugvelli. Farþegum er bent á að fá nánari upplýsingar hjá hópbifreiðafyrirtækjum.

  • Frá 00:00 30. maí til 24:00 31. maí er áætlað verkfall hótelstarfsfólks. Við það mun þjónusta á hótelum mögulega skerðast.

  • Mögulegt verkfall flugafgreiðsluaðila er áætlað frá klukkan 00:00 31. maí til 24:00 1. júní. Flugafgreiðsluaðilar hjá IGS og Airport Associates þjónusta flugfélög á Keflavíkurflugvelli meðal annars við innritun og að hlaða farangri um borð í flugvélar. Verkfall þeirra myndi geta haft áhrif á flugsamgöngur. Farþegum sem eiga bókað flug er bent á að hafa samband við sitt flugfélag um áhrif á sitt flug.

  • 6. júní gæti komið til allsherjarverkfalls hjá VR, Eflingu, Hlíf og VSFK. Ef af verður getur það haft áhrif á bæði innanlands- og millilandaflug. Farþegum er bent á að hafa samband við sitt flugfélag eigi þeir bókað flug á áhrifatíma verkfallsins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert