Gleðja minnissjúka með söng

Starf Elligleði skilar ekki teljum en aftur á móti gefur …
Starf Elligleði skilar ekki teljum en aftur á móti gefur það mikla ánægju. Myndin er úr safni. mbl.is/Rósa Braga

Frá því í mars 2009 hafa Margrét Sesselja Magnúsdóttir og Stefán Helgi Stefánsson reynt að skemmta heilabiluðu og langveiku fólki. Stofnuðu þau nýlega félagið Elligleði og bjóða þau öldruðum með minnissjúkdóma upp á söngskemmtanir.

Þau fara á lokaðar deildir, sambýli og dagvistanir og Stefán syngur þar gömul og góð íslensk lög. Að jafnaði fara þau á hverja deild einu sinni í mánuði.

Byrjaði í afmæli hjá mömmu

„Mamma mín var alzheimersjúklingur og hún, eins og margir aðrir, komst ekki inn á vistheimili fyrr en hún var orðin mjög veik. Hún var orðin það veik að við systkinin skiptumst á að standa sólarhringsvaktir heima hjá henni,“ sagði Margrét Sesselja í samtali við mbl.is, aðspurð hver aðdragandinn að baki stofnun Elligleði hafi verið. 

„Mamma kemst síðan inn á elliheimili og lifir lengi þar og verður níræð. Þegar að því kom langaði okkur að gera eitthvað í tilefni af þeim tímamótum, jafnvel þótt hún skynjaði ekki hvað væri að gerast, hún þekkti okkur systkinin ekki þá. Við ákváðum að fá Stefán Helga og Davíð Ólafsson til að koma og syngja eldgömul íslensk lög, sem fólkið þekkti fyrir svona 50-60 árum.“ Margrét segir viðbrögð sjúklinganna við söngnum hafa verið ótrúleg.

Fólk byrjaði að dilla sér

„Flestir sjúklingarnir voru það veikir að þeir voru ólaðir niður og svöruðu ekki þó þeir væru snertir eða talað við þá. Hins vegar þegar strákarnir voru búnir að taka nokkur lög þá var hver einasti maður farinn að taka þátt á einhvern hátt.“

Fólkið hafi litið upp, farið að dilla sér og sumir hafi jafnvel sungið línu og línu með. „Þetta var sjokkerandi fyrir okkur hin sem þóttumst vera heil. Þarna ákvað ég að gera eitthvað meira með þetta, enda var þetta alveg magnað.“ Allt í einu hafi fólk sem hafði setið dofið lifnað við.

Hugmyndin að stofnun Elligleði kviknaði í þessu afmæli. „Ég fékk Stefán Helga til að vera með mér í þessu og svo kýldum við bara á þetta. Við erum núna búin að heimsækja allar lokaðar deildir fyrir minnissjúka í sex ár.“

Dýrt en gefandi

Heimsóknir þeirra hafa verið mjög vinsælar en svona starf getur verið dýrt. 

„Þegar fór að fjara undan okkur fjárhagslega ákváðum við að heimsækja ekki dagþjálfanirnar vegna þess að fólkið þar er ekki eins veikt og á hinum stöðunum. En síðan hafa þrjár dagþjálfanir hringt og beðið okkur að koma og ætla að borga undir okkur heimsóknina. Við borgum með okkur í hverjum mánuði og erum alls ekki að þessu til að verða ríkari. Þetta gefur okkur ekki tekjur en gefur hins vegar óskaplega mikla ánægju,“ sagði Margrét Sesselja.

Stefán Helgi Stefánsson og Margrét Sesselja Magnúsdóttir skemmta minnisveikum með …
Stefán Helgi Stefánsson og Margrét Sesselja Magnúsdóttir skemmta minnisveikum með söng Ljósmynd/Elligleði
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert