Þau sem búa næst fá oftast far

Á morgun hefst átak í Hörðuvallaskóla í Kópavogi sem hvetur …
Á morgun hefst átak í Hörðuvallaskóla í Kópavogi sem hvetur krakka til að ganga eða hjóla í skólann mbl.is/Friðrik Tryggvason

„Verkefnið snýst um að ganga eða hjóla í skólann og tilgangurinn er að hvetja krakka til að gera þetta í auknum mæli. Rannsóknir hafa sýnt að þessi ferðamáti hefur verið að minnka. Þetta er því átaksverkefni til að auka það,“ sagði Arnar Björnsson, varaformaður foreldrafélagsins í Hörðuvallaskóla í Kópavogi í samtali við mbl.is.

Á morgun hefst verkefni í skólanum þar sem markmiðið er að hvetja krakka til að fara í skólann án þess að fá far. Krakkar er hvattir til að ganga eða hjóla í skólann. 

Þau sem búa næst skólanum fá oftast far

Arnar segir að oft séu það krakkarnir sem búi næst skólanum sem sé skutlað. „Það var gerð könnun í einum árganginum og það er svolítið fyndið að þeir sem búa næst fá oftast far. Líklegast helgast þetta af því að foreldrarnir áttu leið framhjá skólanum á leið í vinnu og kipptu krökkunum því með.“ Þetta sé því orðið að vana sem þurfi að breyta.

Í fyrramálið verða átta stöðvar mannaðar af foreldrum og þangað safnast krakkarnir á leið sinni í skólann. 

Lúðrasveitin tekur á móti börnunum í skólanum

„Þaðan ganga allir síðan eins og maurar í mauraþúfu og lúðrasveit Kópavogs tekur á móti okkur þegar í skólann er komið.“ Arnar bætir við hlæjandi að lúðrasveitin taki ekki á móti krökkunum alla dagana sem þau koma gangandi eða hjólandi. „Þetta er gert til að koma verkefninu almennilega af stað.“

Þetta átak stendur yfir út mánuðinn og verða fleiri viðburðir tengdir þessu. „Já, Dr. Bike kemur og kennir krökkunum í 7. og 8. bekk hvernig þau geti lagað hjól. Síðan munu þeir krakkar fara yfir hjól hjá yngri árgöngum. Þetta verður síðan gert hvert ár, þannig að þetta er líka samfélagslegt verkefni,“ sagði Arnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert