„Núna stoppar mig ekkert“

Hæstiréttur hefur staðfest niðurstöðu héraðsdóms sem felldi úr gildi nálgunarbann yfir fyrrverandi sambýlismanni konu sem hefur ítrekað beitt hana ofbeldi og hótað henni öllu illu. Ástæðan er að konan féll frá beiðninni og að lögreglustjóra skorti heimild í lögum til þess að setja á nálgunarbann.

Byggði á beiðni konunnar en ekki að eigin frumkvæði

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu úrskurðaði manninn í nálgunarbann í hálft ár þann 23. apríl sl. að beiðni konunnar frá því deginum áður.  Ákvörðun lögreglustjóra var því ekki byggð á heimild lögreglu til að leggja bannið á að eigin frumkvæði samkvæmt lögum um meðferð sakamála. Vegna þess og þar sem konan hefur fallið frá kröfu sinni varð Hæstiréttur að staðfesta úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að fella niður nálgunarbannið.

Í nálgunarbanninu fólst að manninum var bannað að koma á eða í námunda við heimili fyrrverandi sambýliskonu sinnar og barnsmóður, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið, mælt frá miðju hússins. Jafnframt var honum bannað að veita henni eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti.

Tvö vitni að árásinni

Í greinargerð lögreglu kemur fram að lögreglan hafi verið send að heimili konunnar um hádegisbil þann 22. apríl sl. en þar hafði  fyrrverandi sambýlismaður ráðist á konuna í bifreið fyrir utan heimili hennar. 

Konan var í miklu uppnámi þegar lögregla kom á vettvang, hafi grátið og skolfið. Hafi mátt sjá áverka aftan á höfði, mar fyrir aftan hægra eyra og húðblæðingu og mar á hálsi konunnar.  

Að hennar sögn sat hún inni í bifreið sinni að tala í símann þegar  fyrrverandi sambýlismaður hennar hafi komið, opnaði hurðina á bifreið hennar og veist að henni í bifreiðinni.

Hún segir að hann hefði kastað sér til og frá í bifreiðinni og að hún hefði skollið með höfuðið í harða hluti í bifreiðinni. Konan segir að hann hefði haldið um hálsinn á sér svo hún hefði átt erfitt með að ná andanum og kýlt hana í höfuðið.

Konan sýndi lögreglunni  skilaboð sem hún hefði fengið frá manninum kvöldinu áður á Facebook þar sem hann hafi sagt: „núna stoppar mig ekkert“. 

Teknar voru myndir af áverkum konunnar og hún leitað á slysadeild til læknis. Konan segist hafa verið hrædd og sér stafi ógn af manninum en þau eiga tvö börn saman.  Hann hafi meðal annars tekið ófrjálsri hendi húslykla og bíllykla, sem hún hefði í bifreiðinni.

Tvö vitni voru að árásinni og tókst öðru þeirra að bjarga konunni undan manninum sem flúði af vettvangi. Skömmu eftir að lögregla kom á vettvang var óskað eftir aðstoð hennar ámeðferðarheimilinu Vogi en þar var árásarmaðurinn ásamt vini sínum. Árásarmaðurinn var handtekinn sama dag og fluttur í fangaklefa á Hverfisgötu.

Við skýrslutöku játaði hann að hafa verið á staðnum en neitaði að hafa veist að fyrrverandi sambýliskonu sinni. Segist hann hafa verið að ná í farsíma af henni. Fyrir liggur áverkavottorð frá 22. apríl, en þar komi fram að konan hafi hlotið rifbrot, og yfirborðsáverka á hálsi og höfði.  

Lögreglan tvisvar kölluð til á þremur vikum

Lögreglan hafi tvisvar síðustu þrjár vikurnar farið heim til konunnar vegna heimilisofbeldis af hálfu fyrrverandi sambýlismanns hennar. Þessi útköll hafi verið dagana 16. apríl sl., og 27. mars sl., en þar hafi konan tilkynnt um ógnandi hegðan mannsins, húsbrot og hótun og ætlað ofbeldi. Jafnframt kærði konan hann fyrir heimilisofbeldi í apríl í fyrra en þá hafi hann lagt á hana hendur og haft í hótunum við hana, með því að ætla að brjótast inn til hennar og kveikja í fötum hennar, en samkvæmt frásögn konunnar hafi slitnað upp úr sambandi þeirra í febrúar 2014, en þau eigi tvö börn saman. 

 Lögreglan taldi ljóst að konunni stafaði ógn af fyrrverandi sambýlismanni sínum og ljóst sé að hún hafi undanfarið orðið að þola ofbeldi af hans hálfu, ógnandi hegðan og áreiti.

„Það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að skilyrði 4. gr. laga nr. 85, 2011 séu uppfyllt enda liggi fyrir rökstuddur grunur um að X hafi brotið með ofbeldi gegn  A og velferð hennar og að hætta sé á að hann haldi áfram með ógnandi hegðan og ofbeldi og raska friði hennar í skilningi 4. gr. laga nr. 85, 2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Ekki sé talið sennilegt að friðhelgi hennar verði vernduð með öðrum og vægari hætti eins og sakir standa,“ segir í gögnum málsins.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 85/2011 getur sá maður sem misgert er við, brotaþoli, fjölskylda hans eða annar honum nákominn, borið fram beiðni um að maður, sakborningur, sem brotið hefur gegn honum eða raskað friði hans á annan hátt, sæti nálgunarbanni og eða brottvísun af heimili. Brotaþoli fór 22. apríl 2015 fram á að varnaraðili sæti nálgunarbanni en hefur nú fallið frá þeirri kröfu, sbr. það sem fram kom af hálfu réttargæslumanns hennar við fyrirtöku málsins. Sóknaraðili telur þó rétt að halda kröfu sinni um nálgunarbann til streitu og skírskotar í því sambandi til 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/2011.

Í ákvæðinu kemur fram að lögreglustjóri geti einnig af eigin frumkvæði tekið mál til meðferðar samkvæmt lögunum ef hann telur ástæðu til. Af athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum nr. 85/2011 verður ráðið að einkum geti komið til þess þegar brotaþoli treystir sér ekki til þess að leggja fram sjálfur beiðni um brottvísun eða nálgunarbann af hræðslu við þann sem krafan beinist gegn.

Það var mat héraðsdómara að í þessu máli sé ljóst að konan hafi verið tvístígandi í afstöðu sinni til þess hvort fyrrverandi sambýlismanni verði meinað að nálgast sig og heimili sitt.

„Samkvæmt því sem fram kom fyrir dómi eru þau að slíta samvistum sem varað hafa um árabil og eiga tvö börn saman. Hún hefur nú með skýrum hætti fallið frá kröfu sinni um nálgunarbann.

Varnaraðili á enga sögu um brotaferil. Eins og málið liggur fyrir verður ekki staðhæft að hún hafi fallið frá beiðninni af hræðslu við varnaraðila. Af þeirri ástæðu og eins og atvikum málsins er háttað að öðru leyti er kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að kærði sæti nálgunarbanni hafnað,“ segir í niðurstöðu héraðsdóms frá 30. apríl sl.

Ómerkti úrskurð um nálgunarbann

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert