Lausnirnar betri en núverandi ástand

Jöklar á Íslandi munu hverfa á næstu 100-200 árum vegna …
Jöklar á Íslandi munu hverfa á næstu 100-200 árum vegna hnattrænnar hlýnunar. Ómar Óskarsson

Mannkynið á eftir að upplifa meiri erfiðleika á næstu áratugum af völdum loftslagsbreytinga en þó að vandamálið verði ekki leyst á loftslagsfundi Sameinuðu þjóðanna á þessu ári eru lausnirnar sem eru mögulegar margar betri en núverandi ástand heimsins. Þetta er á meðal þess sem kom fram á fundi Landsvirkjunar um loftslagsbreytingar í morgun.

Halldór Björnsson, hópstjóri loftslagsrannsókna hjá Veðurstofu Íslands, fór yfir áhrif loftslagsbreytinga á Ísland í erindi sínu á fundinum. Þær breytingar sem séu að verða á jörðinni séu fordæmalausar þegar litið sé til síðustu áratuga og árþúsunda. Þannig hafi yfirborð sjávar til að mynda hækkað meira á síðustu öld en á þeim 2.000 árum sem á undan voru liðin.

Hlýnuninni verði ekki jafnt skipt um jörðina. Óljóst sé um áhrif hlýnunar jarðar á Íslandi þar sem landið liggi á milli svæða þar sem hlýnun verði meiri en að meðaltali og minni. Fyrir utan áhrif af hækkandi yfirborði sjávar nefndi Halldór að jöklar muni að líkindum hverfa á næstu 100-200 árum, afrennsli jökulsáa muni breytast með mögulegri aukningu á orku fyrir virkjanir, landið sé að grænka og gróðurlínur að færast hærra og þá séu breytingar að verða á lífsskilyrðum í hafinu.

Verða ekki komin á beinu brautina

Á loftslagsþingi Sameinuðu þjóðanna sem fer fram í París í desember er stefnt að því að samkomulag náist á milli þjóða heims um ný markmið í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til að hægt verði að forðast verstu afleiðingar loftslagsbreytinga.

Halldór Þorgeirsson, forstöðumaður stefnumörkunar hjá skrifstofu rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, sagði að jafnvel þó að það takist verði ekki hægt að segja að heimsbyggðin sé komin á beinu brautina í átt að því að forðast hættulegar afleiðingar hnattrænnar hlýnunar. Vandamálið verði ekki leyst í fyrsta áfanga. Ríki heims þurfi í fyrsta lagi að ná meiri árangri en þau stefni að og einnig að endurskoða markmið sín.

Sagði hann auðvelt að fyllast bölsýni um að mönnum takist að forðast afleiðingar losunar sinnar á gróðurhúsalofttegundum en nefndi fjórar ástæður til bjartsýni um að breyting sé að verða til batnaðar. Ekki sé lengur of dýrt og óraunhæft að breyta orkukerfum. Sólar- og vindorka sé orðin samkeppnisfær við hefðbundna orku. Þá hafi borgar- og landshlutastjórnir víða um heim haft frumkvæði að lausnum. Margar borgir séu þannig í framvarðarsveit baráttunnar gegn loftslagsbreytingum, til dæmis með aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og að draga úr afleiðingum hlýnandi loftslags.

Auk þess sagði Halldór að hugafarfarsbreyting væri að eiga sér stað hjá þróunarríkjum og langtímafjárfestum. Þróunarríkin gerðu sér nú grein fyrir því að það væri í þeirra hag að taka með virkum hætti á vandanum. Mikilvægasta dæmið væri Kína þar sem stjórnvöld hafi ráðist í grundvallarbreytingar á orkuframleiðslu. Þau telji feykileg viðskiptatækifæri felast í því að fikra sig í átt að endurnýjanlegri orku. Þá hafi Sádí-Arabía, einn helsti olíuútflytjandi heims, breytt um stefnu að undanförnu og fjárfest í endurnýjanlegri orku.

Hvað fjárfestana varðaði sagði Halldór að margir langtímafjárfestar eins og lífeyrissjóðir og aðrir stofnanafjárfestar horfi meira með loftslagsgleraugum á hvar þeir ávaxti pund sitt. Þar horfi þeir til áhættu og væntinga um framtíðarávöxtun. Þetta hafi leitt til þess að margir hafi dregið fé sitt úr vinnslu á jarðefnaeldsneyti og veitt því til endurnýjanlegra orkugjafa. 

Auglýst eftir stefnu til að stöðva súrnun hafsins

Í pallborðsumræðum að loknum erindum á fundinum kom meðal annars fram hjá Rannveigu Rist, forstjóra Rio Tinto Alcan, að frá árinu 1990 hafi losun álversins í Straumsvík á gróðurhúsalofttegundum dregist saman um helming þrátt fyrir að framleiðslan hafi aukist verulega á sama tíma.

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, sagði að honum væri afneitun efst í huga varðandi umræðu um loftslagsbreytingar á Íslandi. Þegar loftslagsmál hafi komið fyrst á dagskrá hafi stefna Íslands verið að auka losun sína og fá undanþáguákvæði frá Kyoto-bókuninni. Síðan þá hafi umræðan aukist og dýpkað en sjálfsánægja og grobb einkenndu engu að síður enn Íslendinga og þeir álitu að vegna endurnýjanlegra orkugjafa sinna þyrftu þeir ekki að leggja neitt af mörkum. Auglýstu Árni eftir því hver stefna Íslands væri til að koma í veg fyrir súrnun sjávar.

Hugi Ólafsson, skrifstofustjóri í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og aðalsamningamaður Íslands í loftslagsmálum, sagði að ekki væru miklir peningar sett í aðgerðir sem tengjast loftslagsmálum á Íslandi. Breyting væri að eiga sér stað en hún væri hæg og nefndi hann meðal annars fjölgun hjólastíga sem dæmi. Hægt væri að taka ákvörðum um að hraða aðgerðum en þá þyrfti að koma til sterkur vilji og fjármunir til að fylgja því eftir.

Út í hött að fara á milli staða með jarðefnaeldsneyti

Orkuveita Reykjavíkur sér tækifæri í aukinni rafbílavæðingu á Íslandi og vel í stakk búin til að taka á móti fleiri rafbílum á höfuðborgarsvæðinu, að sögn Hólmfríðar Sigurðardóttur, umhverfisstjóra Orkuveitu Reykjavíkur. Mikilvægt væri hins vegar að aðflutningsgjöld á rafbíla væru afnumin til lengra tíma en eins árs í senn svo að fólk sæi að lag væri að kaupa slíkan bíl í framtíðinni.

Halldór Þorgeirsson sagði það út í hött að menn notuðu jarðefnaeldsneyti til að fara á milli staða á eyjunni Íslandi. Taka þyrfti ákvörðun um að rafvæða samgöngur og framkvæma það. Það myndi hafa mikil áhrif á hagsæld í landinu.

Halldór Björnsson, hópstjóri loftslagsrannsókna hjá Veðurstofu Íslands.
Halldór Björnsson, hópstjóri loftslagsrannsókna hjá Veðurstofu Íslands. Kristinn Ingvarsson
Rannveig Rist sagði að útblástur frá álverinu í Straumsvík hefði …
Rannveig Rist sagði að útblástur frá álverinu í Straumsvík hefði dregist saman um helming frá því árið 1990. Ljósmynd/Alcan
Fulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur sagði fyrirtækið vel í stakk búið fyrir …
Fulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur sagði fyrirtækið vel í stakk búið fyrir aukna rafbílavæðingu á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/afp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert