„Yrði verulegt tjón“

Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ.
Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ.

„Ef af verkfallinu verður þá mun það hafa þau áhrif að fólk kemst ekki til landsins eða frá landinu og þá eru leikarnir í hættu,“ segir Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ um Smáþjóðaleikana sem eiga að hefjast í Reykjavík þann 1. júní.

Allsherjarverkfall starfsfólks flugafgreiðslu mun hefjast þann 6. júní ef ekki semst fyrir mánaðarmótin. Að sögn Líneyjar hafa íþróttasamböndin erlendis ekki haft samband við ÍSÍ vegna stöðunnar og engar afboðanir átt sér stað enn. ÍSÍ heldur samböndunum hins vegar upplýstum og fólk fylgist vel með stöðu mála.

Ekki er inni í myndinni að fresta leikunum að sögn Líneyjar. „Við sjáum enga aðra lausn en að aflýsa leikunum. 11. júní hefjast Evrópuleikar í Bakú og flest íþróttafólk er að fara þangað þannig að það er ekki hægt að fresta leikunum. Ef það skellur á allsherjarverkfall þá er staðan ennþá ótrygg þótt við myndum fresta leikunum.“

Heildarvelta leikanna er rúmlega 500 milljónir króna. „Vonandi myndum við komast út úr einhverjum skuldbindingum þannig að það er erfitt að segja hvað þetta mun kosta en það er ljóst að ef við verðum að hætta við leikana þá verður verulegt tjón.“

Sjá frétt mbl.is: „Það er ekki hægt að fresta þeim“

Blossi, lukkudýr Smáþjóðaleikanna.
Blossi, lukkudýr Smáþjóðaleikanna. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert