Fyrirtæki vilja semja en ekki bíða eftir SA

Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar, reiknar með undirskrift nokkurra samninga …
Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar, reiknar með undirskrift nokkurra samninga á allra næstu dögum. mbl.is/Sigurður Bogi

Fulltrúar Framsýnar hafa um helgina átt í viðræðum við nokkur fyrirtæki á félagssvæðinu sem standa utan Samtaka atvinnulífsins um gerð kjarasamnings. Frumkvæðið hefur komið frá fyrirtækjunum.

Fram kemur í tilkynningu á vef Framsýnar, að félagið hafi áður undirritað 23 kjarasamninga við fyrirtæki á svæðinu. Ekki sé ólíklegt að skrifað verði undir nokkra samninga til viðbótar á allra næstu dögum enda hafa viðræðurnar við fyrirtækin gengið vel um Hvítasunnuna.

Til viðbótar megi geta þess að fyrirtæki sem séu með um 150 starfsmenn í vinnu hafi haft samband við skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík fyrir helgina og óskað eftir viðræðum um gerð kjarasamnings fyrir starfsmenn fyrirtækisins.

„Fyrirtækið er með starfsstöðvar víða um land, þar á meðal á félagssvæði stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Fyrirtækið er með drög að kjarasamningi til skoðunar og mun svara því eftir helgina hvort það gengur að kröfum félagsins. Ljóst er að þolinmæði fyrirtækjanna er á þrotum gagnvart Samtökum atvinnulífsins enda hafa samtökin sýnt lítinn samningsvilja. Það á bæði við um fyrirtæki innan og utan SA,“ segir á vef Framsýnar.

Þá segir, að næstu verkföll aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins bresti á næsta fimmtudag, 28. maí, verði ekki búið að semja fyrir þann tíma.

Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar, reiknar með undirskrift nokkurra samninga á allra næstu dögum í ljósi þess að fyrirtækin viliji komast hjá verkfalli og telja auk þess kröfur Starfsgreinasambandsins sanngjarnar og því aðgengilegar fyrir fyrirtækin.

Reikna megi með því að undirskriftarpenninn verði á lofti næstu daga þar sem viðræður Framsýnar við fyrirtæki í Þingeyjarsýslum hafi gengið afar vel síðustu daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert