Leiði til raunverulegra kjarabóta

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Markmiðið í yfirstandandi kjaraviðræðum er að leggja grunn að góðri lausn. Fyrir vikið hefur ríkið verið tilbúið til að skoða ýmsar ólíkar nálganir en ávallt nefnt í því samhengi að aðkoma þess þurfi að vera til þess fallin að tryggja að niðurstaðan leiði til raunverulegra kjarabóta fyrir launþega. Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á Alþingi í dag þar sem hann svaraði fyrirspurn frá Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar.

Árni Páll sakaði Sigmund um að spilla fyrir kjaraviðræðum með ummælum í fjölmiðlum síðustu daga. Minnti hann á að verkfall hjúkrunarfræðinga hæfist á miðnætti og spurði hvort ekki væri hægt að ná saman þvert á flokka um aðkomu ríkisins að kjaradeilum til þess að greiða fyrir lausn þeirra. Sigmundur tók vel í það en minnti á að nauðsynlegt væri að tryggja að hugsanlegar launahækkanir yrðu ekki étnar upp af verðbólgu. Þess vegna legðu stjórnvöld þunga áherslu á að niðurstaðan yrði til þess að skapa raunverulegar kjarabætur.

„Því að ef aðilar vinnumarkaðarins eða viðsemjendur missa þetta út í það að efnahagsástandið þróist til verri vegar, að verðbólgan fari af stað, bitnar það á stéttum eins og hjúkrunarfræðingum sem munu þá tapa á þeirri þróun. Bæði beint með því að tekjurnar verða minna virði og með því að skuldirnar hækka, allt verður dýrara. Það er ekki til þess fallið að búa þessu fólki starfsöryggi eða góða vinnuaðstöðu á Íslandi. Þess vegna hlýtur sameiginlegt markmið okkar allra að vera að niðurstaða þessara viðræðna leiði til raunverulegra kjarabóta,“ sagði ráðherrann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert