Loka þarf um 75% allra sjúkrarýma á Selfossi og í Vestmananeyjum

Sjúkrahús HSU á Selfossi og í Vestmannaeyjum.
Sjúkrahús HSU á Selfossi og í Vestmannaeyjum.

Loka þarf um 75% allra sjúkrarýma á Selfossi og í Vestmannaeyjum ef það verður af verkfalli hjúkrunarfræðinga. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Herdísi Gunnarsdóttur, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Á Selfossi verða opin 5 rúm af 18 sjúkrarúmum en áfram eru öll 40 hjúkrunarrými opin. Í Vestmannaeyjum verða um 4 rúm af 15 sjúkrarúmum opin, en þegar eru þar fyrir sjúklingar sem eru í biðplássi eftir hjúkrunarrými.  Þar eru áfram opin 7 hjúkrunarrými.

Í tilkynningunni kemur fram að allir sjúklingar sem eru í virkri meðferð verða áfram á sjúkrahúsunum, en ekki verður möguleiki að taka við nýjum sjúklingum nema í bráðatilfellum. Jafnframt verða bráðadeildir á Selfossi og í Vestmanneyjum opnar. Eins verður sótt um undanþágu til að veita göngudeildarþjónustu fyrir blóðskilunarsjúklinga á Selfossi og krabbameinssjúklinga í Vestmannaeyjum.

Þjónusta í heimahjúkrun á Suðurlandi verður óbreytt að mestu. Sjúklingar sem eiga bókaðan tíma á heilsugæslu eru beðnir um að fylgjast með framvindu verkfallsins, en þjónustu hjúkrunarfræðinga á heilsugæslu verður forgangsraðað.

Starfsemi rannsóknarstofu dregist saman um 70%

Ný Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) var stofnuð 1. október 2014 með sameiningu Heilbrigðisstofnunar Suð-Austurlands (HSSa), Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSu) og Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja (HSVe).  Sameiningin tók formlega gildi 1. janúar á þessu ári.

Í tilkynningunni kemur fram að verkfall BHM,sem hefur staðið í um átta vikur, hafi þegar haft veruleg áhrif á daglega starfsemi HSU. 

„Starfsemi rannsóknarstofunnar hefur dregist saman um 70% í apríl og maí vegna verkfalls lífeindafræðinga. Engar rannsóknir eru framkvæmdar á röntgendeildinni nema í bráðatilfellum að fenginni undanþáguheimild eða vegna útkalla bakvaktar eftir kl. 16:00 á daginn, vegna allsherjarverkfalls geislafræðinga. Alls hefur HSU á Selfossi og í Vestmannaeyjum fengið 30 undanþáguheimildir vegna myndgreiningarannsókna auk bráðatilvika til myndgreininga, en að öðru leyti liggur starfsemi röntgendeildarinnar niðri. Einnig hafa 55 undanþágur verið veittar vegna blóðrannsókna sem ekki þola bið.  Ljóst er að verkfallið er þegar farið að hafa alvarleg áhrif á framvindu meðferðar margra sjúklinga sem þurfa að þola bið eftir svörum sem varða næstu skref í meðferð þeirra.  Ástandið er því orðið grafalvarlegt og óvíst hvert raunverulegt ástand sjúklinga er sem enn bíða eftir rannsóknum. Eins ríkir óvissa um hvaða áhrif töf á því að komast til meðferðar mun hafa í för með sér fyrir sjúklinga,“ segir í tilkynningu.

Verkfall hjúkrunarfræðinga geysilega erfið viðbót

Verkfall hjúkrunarfræðinga yrði HSU geysilega erfið viðbót við yfirstandandi verkföll lífeinda- og geislafræðinga og ljósmæðra, segir í tilkynningu. Komi til þess verkfalls getur skapast áhætta fyrir sjúklinga ef töf verður á þjónustu og úrvinnslu undanþágubeiðna fyrir bráðveika sjúklinga. Því er alveg ljóst að allsherjarverkfall hjúkrunarfræðinga mun draga úr getu HSU til að sinna þörfum sjúklinga og meðhöndla einkenni. Það mun skapa verulega ógn við öryggi sjúklinga. 

„Við óttumst það ástand sem gæti skapast en munum tryggja alla neyðarþjónustu eins og kostur er.  Aðgerðir eru í fullum undirbúningi á HSU til að bregðast við yfirvofandi verkfalli. Samningsaðilar eru hvattir til að leysa kjaradeilur heilbrigðisstétta sem fyrst og ganga hratt til samninga svo forða megi því að skaði hljótist af fyrir sjúklinga. Komi til verkfalls hjúkrunarfræðinga mun það hamla getu okkar til að bregðast við ástandi sjúklinga og veita viðunandi meðferð í tæka tíð.  Ástandið í heilbrigðiskerfinu einkennist nú af gífurlegri óvissu sem veldur mikilli áhættu og ljóst er að það mun taka langan tíma að vinna upp þær afleiðingar sem núverandi verkföll hafa þegar haft fyrir sjúklinga.“

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.
Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri HSU.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert