Ennþá virkur og jákvæður

Geir R. Tómasson er á 99. aldursári og flutti nýlega …
Geir R. Tómasson er á 99. aldursári og flutti nýlega hugvekju í Dómkirkjunni. Ræðan hreyfði við mörgum mbl.is/Golli

Geir R. Tómasson, fyrrverandi tannlæknir, hreyfir við mörgum með einstaklega jákvæðu hugarfari og viðhorfi til lífsins. Geir, sem verður 99 ára í næsta mánuði, flutti nýlega hugvekju í Dómkirkjunni á degi eldri borgara. Ræða hans snerti við mörgum en í henni vildi hann fá fólk til að virða hin sönnu gildi lífsins og veita hugarfari sínu eftirtekt.

„Ég er mjög trúaður og hef verið það frá því ég var lítill drengur enda búinn að lenda í þeim raunum sem fáir Íslendingar hafa lent í á lífsleiðinni svo það var eins gott að eiga einhverja trú,“ segir Geir.

Upplifði heimsstyrjöld í Köln

Geir var við nám í tannlækningum í Köln í Þýskalandi þegar síðari heimsstyrjöldin braust út og upplifði þar miklar hörmungar. „Eitt af því sárasta var að frétta af því að góðum vinum mínum, sem voru nýbúnir að leggja á sig strangt nám, hefði verið slátrað á vígvellinum. Þetta var hræðileg upplifun. Eins var með loftárásirnar á hverri nóttu í Köln meðan á stríðinu stóð. Hvað maður var hætt kominn. Nasistarnir gengu ekki aðeins hart fram gegn gyðingunum heldur líka gegn sínum eigin mönnum sem ekki vildu fylgja þeim. Það var alveg hræðilegt,“ segir Geir. Hann segist þrisvar hafa lent í yfirheyrslum hjá öryggislögreglunni Gestapo en kýs að tjá sig ekki um þá reynslu.

Doktorsverkefni Geirs í Köln fjallaði um berkla í munni. Geir segir þó drauminn hafa verið að fara í læknanám en þar sem tannlæknanámið hafi verið styttra og ódýrara hafi það orðið að duga. „Ég sá samt alltaf eftir læknisfræðinni, það var það sem mig langaði alltaf til að læra. Ég hef alltaf lesið mikið lækningabækur og vonandi getað hjálpað einhverjum,“ segir Geir.

Í Köln kynntist Geir Maríu Elfriede Tomasson sem hann síðan kvæntist. Eignuðust þau þrjú börn en hann á fjögur barnabörn og ellefu barnabarnabörn.

Spurður hverju honum þyki mikilvægast að miðla til almennings segir hann það vera að efla hið góða og forðast hið illa. Þetta þurfi að hafa í huga í hugsunum, orðum og gjörðum. „Ef þú hugsar mikið um það illa og ljóta í tilverunni þá vex það inn í þig og verður gróður sem erfitt er að uppræta. Þú ert á hverjum tíma eins og þú hugsar,“ segir Geir.

Ekur enn bíl og gengur stiga

Geir er við mjög góða heilsu, hann býr enn heima hjá sér, þar sem hann gengur upp og niður stiga á degi hverjum. Þá keyrir hann einnig og í síðustu viku festi hann kaup á nýjum bíl. Bíllinn sem varð fyrir valinu er Hyundai s35-smájeppi en Geir segist nýta bílinn einungis í nauðsynleg erindi til að komast milli staða.

Á árum áður fór Geir á skíði og var í íþróttaklúbbi. Hann hefur verið duglegur að mæta í sundlaugarnar, synti áður fyrr en fór svo að mæta frekar í gufu og pottana. Í dag stundar hann helst göngur. Geir á sæti í safnaðarnefnd Dómkirkjunnar og iðkar trú sína mikið. Hann segir athyglina breytast með hækkandi aldri, „maður verður meiri hlustandi en gerandi í lífinu,“ segir Geir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert