Skoðanir á ungbörnum falla niður

Engri ung- eða smábarnavernd verður sinnt á heilsugæslum höfuðborgarsvæðisins á …
Engri ung- eða smábarnavernd verður sinnt á heilsugæslum höfuðborgarsvæðisins á meðan verkfall hjúkrunarfræðinga stendur yfir. Halldór Kolbeins

Verkfall hjúkrunarfræðinga sem hófst á miðnætti hefur töluverð áhrif á starfsemi heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu. Nú er einungis yfirhjúkrunarfræðingur við störf á hverri heilsugæslustöð og starfsemi mæðraverndar og ung- og smábarnaverndar er verulega skert eða fellur alveg niður. Jafnframt fellur heilsuvernd skólabarna og bókaðar hjúkrunarmóttökur alveg niður.

Hjúkrunarvakt, sem er venjulega opin þjónusta,  sinnir nú eingöngu lífshamlandi erindum.
Reynt verður að fá undanþágu fyrir starfandi hjúkrunarfræðinga í heimahjúkrun til að hún raskist sem minnst en ekki verður tekið við neinum nýjum beiðnum á meðan á verkfalli stendur.

Skoðunum á ung- og smábörnum seinkar

Reglulegar skoðanir og bólusetningar í ung- og smábarnavernd fara fram á hverjum degi á heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins. „Verkfallið hefur það í för með sér að þeim skoðunum seinkar og dragast um þann tíma sem verkfallið stendur. Auðvitað er lagt upp úr því að þær geti farið fram sem næst þeim tíma sem verið er að skoða svo þetta sé marktækt. Það er ljóst að  til lengri tíma litið hefur það veruleg áhrif að þessar skoðanir falla niður,“ segir Svanhvít Jakobsdóttir, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.

„Við siglum inn í sumarið og fáum enga afleysingu fyrir heilsuverndina eða hjúkrunarmóttökuna aðeins heimahjúkrun svo allt mun verða erfiðara með degi hverjum.“

Ljósmæður sem eru í Ljósmæðrafélagi Íslands eru ekki í verkfalli þannig að á sumum stöðvum er mæðravernd en á öðrum ekki. Að sögn Svanhvítar verður alltaf verðu tekið mið af lífi og heilsu móður og barns hvað mæðravernd varðar.

Sinna 650 til 700 í heimahjúkrun

Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu sinnir um 650-700 einstaklingum í heimahjúkrun í Hafnarfirði, Garðabæ, Kópavog og Mosfellsbæ. „Við höfum verið að sækja um undanþágur til þess að halda úti þeirri þjónustu,“ segir Svanhvít og bætir við að sú þjónusta sé gífurlega mikilvæg. „Við verðum að geta sinnt þeirri þjónustu.“

Þeir sem fá heimahjúkrun frá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins eru að fá heimsóknir frá hjúkrunarfræðingi allt frá nokkrum sinnum í viku til nokkrum sinnum yfir daginn og alla daga ársins. „Hjúkrunarfræðingar í heimahjúkrun eru einnig að verkstýra öðrum starfsmönnum s.s sjúkraliðum og félagsliðum en bara hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins starfa um 62 starfsmenn í heimahjúkrun og sinna um 650- 700 einstaklingum í nær 400 vitjunum á dag,“ segir Svanhvít. 

Aðspurð hvort að skjólstæðingar heilsugæslunnar séu uggandi yfir þessum aðgerðum segir Svanhvít að ekki sé komin mikil reynsla á það þessa fyrstu tíma verkfalls. „En ég á von á því að þetta þyngist með hverjum deginum sem líður.“

Svanhvít Jakobsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Svanhvít Jakobsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert