Mátti ekki skera niður til hermála

Andrés Ingi Jónsson, varaþingmaður VG.
Andrés Ingi Jónsson, varaþingmaður VG.

„Þær spurningar sem Grikkir standa frammi fyrir núna um helgina varða miklu meira en bara fjárhag gríska ríkisins, þær varða lýðræðisþróun í Evrópu og lýðræðisþróun almennt í heiminum,“ sagði Andrés Ingi Jónsson, varaþingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á Alþingi í dag. Þar gerði hann að umfjöllunarefni sínu efnahagserfiðleika Grikkja og fyrirhugað þjóðaratkvæði í Grikklandi á sunnudaginn, um skilyrði alþjóðlegra lánadrottna landsins fyrir frekari lánveitingum, sem forsætisráðherra Grikkja, Alexis Tsipras, hefur boðað.

„Eftir að hafa verið í stöðugri krísustjórnun á vegum Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins síðustu fimm árin virðist landið komið á ákveðna endastöð. Á sunnudaginn greiðir gríska þjóðin atkvæði um drög að samningi sem mundi krefjast enn frekari niðurskurðar á velferðarkerfinu. Velferðarkerfi sem hefur stöðugt verið gengið á. Velferðarkerfi sem rétt hangir á horriminni. Hér er meira í húfi en fjármálakerfið. Er lýðræðiskerfið komið þangað að það snúist bara um lögmál hagkerfisins? Að fjármálaráðherra Þýskalands ráði meiru um örlög grískra spítala og grískra lífeyrisþega en grísk stjórnvöld sjálf?“ spurði hann.

Andrés sagði Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hafa í samskiptum sínum við Grikkland sýnt auðvaldinu allt of mikla þjónkun á kostnað almennings í landinu. 

„Það kom til dæmis skýrt í ljós þegar ríkisstjórn Alexis Tsipras lagði til að verða við niðurskurðarkröfu ESB og AGS með einföldum hætti, að skera niður í hermálum. Atlantshafsbandalagið áætlar að heil 2,4% af þjóðarframleiðslu Grikkja renni til hermála á yfirstandandi ári þannig að þarna eru greinilega mikil sóknarfæri í að draga úr ríkisútgjöldum. En þá háttar svo til að 15% af útflutningi Þjóðverja á hergögnum renna til Grikkja og 10% hergagnaútflutnings Frakka fara sömu leið. Tillögum ríkisstjórnar Grikklands um að mæta niðurskurðarkröfunni með niðurskurði í hermálum var því hafnað af viðsemjendunum. En hvort er það í þágu grísks almennings eða auðvaldsins í kjarnaríkjum Evrópusambandsins?“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert