Ætlar Ísland að hanga aftan í lestinni?

Álver Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði. Losun gróðurhúsalofttegunda miðað við höfðatölu …
Álver Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði. Losun gróðurhúsalofttegunda miðað við höfðatölu er há á Íslandi vegna stóriðju en einnig vegna bílasamgangna og fiskiskipaflotans. Ljósmynd/Emil Þór Sigurðsson

Gott er að Ísland ætli sér að vera með Evrópusambandinu og Noregi í því að stefna að 40% samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda en skýra stefnu skortir um hvað Ísland ætli að leggja til málanna eitt og sér, að mati Árna Finnssonar, formanns Náttúruverndarsamtaka Íslands.

Umhverfisráðuneytið tilkynnti í gær að Ísland muni leitast við að ná sameiginlegu markmiði Evrópusambandsríkja og Noregs um að draga úr losun á gróðurhúsalofttegundum um 40% miðað við árið 1990 fyrir 2030. Ísland stefnir fyrir að rúmlega 20% samdrætti í losun fyrir árið 2020 á grundvelli Kyoto-bókunarinnar.

Árni segir skynsamlegt fyrir Íslendinga að vera í samfloti með öðrum Evrópuríkjum þar sem við séum þegar þátttakendur í evrópskum markaði með losunarheimildir (ETS) og erfiðara væri fyrir okkur að hafa áhrif ein á báti. Hann bendir hins vegar á að Norðmenn hafi þegar lýst því yfir að þeir muni draga úr eigin losun um 40% fyrir árið 2030, óháð sameiginlega markmiðinu með Evrópusambandinu. Í yfirlýsingu umhverfisráðuneytisins komi hins vegar ekkert fram um eiginleg markmið Íslands.

„Það sem vantar er skýr stefna um hvað Ísland ætlar að leggja til eitt og sér. Við erum að eiga við súrnun sjávar og breytingar á lífríki sjávar vegna loftslagsbreytinga. Hvert er markmið Íslands? Það hefur ekki komið fram. Það er bara þetta almenna markmið um að draga úr losun um 40% og þá með öðrum löndum. Spurningin er þá ætlar Ísland að leggja til metnaðarfull markmið, gera eins og Noregur og segjast ætla að draga úr losun um 40%, eða ætla íslensk stjórnvöld að hanga aftan í lestinni í von um ódýrt far?“ segir Árni.

Engin skýr stefna um hvað eigi að gera

Loftslagsfundur Sameinuðu þjóðanna fer fram í París í desember en þar er stefnt að því að ná alþjóðlegu samkomulagi um að draga úr losun til að forða verstu áhrifum loftslagsbreytinga.

Þó að Íslendingar brenni ekki kolum eða olíu fyrir orkuframleiðslu eins og mörg ríki heims segir Árni að losun á gróðurhúsalofttegunda á hvert mannsbarn sé mjög há hér miðað við önnur Evrópuríki. Þar leggist á eitt stóriðja, samgöngur og fiskiskipaflotinn. Stóriðjan er á sameiginlegri ábyrgð Evrópuríkja en önnur losun er á okkar ábyrgð.

„Þar þarf að taka til hendinni. Það er kannski þar sem íslensk stjórnvöld hafa enn ekki komið fram með neina skýra stefnu um hvað þau ætli að gera,“ segir Árni.

Fyrri frétt mbl.is: Markmið Íslands enn ekki ljóst

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.
Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert