Gunnar Bragi fundaði með Work

Gunnar Bragi Sveinsson er staddur í heimsókn í Washington.
Gunnar Bragi Sveinsson er staddur í heimsókn í Washington. AFP

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, átti í gær fund í Pentagon með aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Robert S Work, sem tók við embætti fyrir rúmu ári. Ræddu ráðherrarnir þróun varnar- og öryggismála í Norður-Evrópu, m.a. með tilliti til umsvifa rússneska heraflans og aðgerða Rússa í Úkraínu og víðar.

Work sagði skuldbindingu Bandaríkjanna um að verja Ísland algerlega óhaggaða og lýsti vilja til þess að skoða möguleika til frekara samstarfs ríkjanna á sviði varnar- og öryggismála. Hann sagði Ísland lykilbandamann og að staðsetning landsins hafi áfram strategískt mikilvægi eins og það hafi haft alla tíð. Work lofaði einnig leiðandi hlutverk Íslands í að efla svæðisbundið samstarfs á sviði norðurslóða, s.s. varðandi leit og björgun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Gunnar Bragi sagði að Bandaríkjanna biði vandasamt verkefni, þau tækju við formennsku í Norðurskautsráðinu á tímum væringa í Evrópu og aukinnar spennu í samskiptum við Rússa. Jafnframt sagði hann vonir standa til þess að Rússar virði Minsk samkomulagið og láti af ögrandi aðgerðum þannig að gott samstarf innan Norðurskautsráðsins raskist ekki.

Undir lok dags flutti Gunnar Bragi erindi um málefni norðurslóða og hagsmuni Íslands í hugveitunni Center for Strategic and International Studies. Umræðum stýrði framkvæmdastjóri CSIS Dr. John Hamre sem gegndi stöðu aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna frá 1997 til 2000. Ráðherra ræddi áherslur Íslands í norðurslóðasamstarfi, formennsku Bandaríkjanna í Norðurskautsráðinu og öryggishagsmuni Íslands.

Hér má sjá upptöku af erindi utanríkisráðherra hjá CSIS.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert