Mikil vinna á bak við hvert ber

Hólmfríður Geirsdóttir garðyrkjubóndi.
Hólmfríður Geirsdóttir garðyrkjubóndi. Eggert Jóhannesson

Árið 2009 hóf Hólmfríður Geirsdóttir garðyrkjubóndi og maður hennar, Steinar Jensen, ræktun á hind- og brómberjum. Hjónin keyptu tómt gróðurhús sem var í niðurníðslu, löguðu það til og gerðu tilbúið undir ræktun. Kom sér vel að Steinar er rafvélavirki og þúsundþjalasmiður og verkvit hans kom því til góða í þessum framkvæmdum.

Hindberjaplöntuna þarf að rækta í eitt ár áður en hún fer að mynda blóm og ber. Runninn er hávaxinn, verður rúmir þrír metrar á hæð og er mikil handavinna á bak við hvert ber. Þau eru handtínd ofan í öskjurnar sem sjá má í flestum matvörubúðum. Hólmfríður vonast til að geta boðið upp á fersk íslensk hindber fram í september.

„Þessi ræktun gengur bara ágætlega. Við byrjuðum smátt, ætli þetta sé ekki fjórða sumarið sem við erum að tína. Höfum verið að auka við okkur smátt og smátt og erum komin með brómber líka,“ segir Hólmfríður, stödd í gróðurhúsinu sínu.

Býflugnasuð í botni

Það er mikið um að vera í gróðurhúsinu þó að öll starfsemi dagsins sé búin. Býflugur sjá um að frjóvga blómin og ýmis önnur nytjadýr eru notuð til að halda niðri meindýrum, enda segir Hólmfríður að það þurfi ekki lengur að skola íslenskt grænmeti. Nánast allir garðyrkjubændur notist við lífrænar varnir og því séu plönturnar ekki úðaðar með eitri.

„Hér eru náttúrulegar varnir, býflugnabú í öllum húsum. Þær sjá um frjóvgun og svo notum við lífrænar varnir ef það kemur upp lúsafaraldur eða eitthvað annað. Þá kaupum við skordýr sem vinna á því. Þannig losnum við við að úða plönturnar.“

Stór vinnustaður

Alls vinna 13 manns á Kvistum í sumar enda segir Hólmfríður að mikil vinna sé á bak við hvert ber. „Tínslan er tímafrek því að hvert ber er bara 5-10 grömm. Í tínslu eru berin dregin af kjarnanum og þess vegna eru þau hol að innan. Berin eru viðkvæm og tínd beint í neytendapakkningar. Tínslan byrjar í maí og tínt er daglega fram í september en bíll frá Sölufélagi garðyrkjumanna kemur þrisvar í viku og sækir ný og fersk ber til okkar,“ segir Hólmfríður að endingu.

Stoppa stutt í hillunum

„Það eru margir spenntir yfir þessu, sérstaklega þegar við vorum að setja þetta á markað. Þá var mikið spáð og spekúlerað og margir komu í heimsókn til að skoða. Nú koma enn fleiri til að kaupa,“ segir Hólmfríður og hlær.

Í miðju viðtalinu kom Stefán Jónsson leikstjóri í hlað með börnin sín og keypti. Skömmu síðar renndi Eva María Jónsdóttir sjónvarpskona í hlað með sinni fjölskyldu og keypti allar þær öskjur sem eftir voru. Sátu börnin svo við gróðurhúsið og hámuðu í sig góðgætið. Fullorðna fólkið stalst svo í eitt og eitt ber.

Eftirspurn er mikil eftir berjunum því nánast um leið og þau koma í búðarhillurnar eru þau farin.

Hindberjaplöntuna þarf að rækta í eitt ár áður en hún …
Hindberjaplöntuna þarf að rækta í eitt ár áður en hún fer að mynda blóm og ber. Eggert Jóhannesson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert