Til að firra glundroða eða glæpum

Frá mótmælum BHM við Stjórnarráðið.
Frá mótmælum BHM við Stjórnarráðið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það má segja að í grundvallaratriðum snúist málið af hálfu BHM um að í 74. grein stjórnarskrárinnar sé regla sem felur ekki aðeins í sér að fólki sé frjálst að eiga aðild að félögum, heldur verji hún líka rétt félaganna til að starfa,“ segir Ástráður Haraldsson, lögmaður Bandalags háskólamanna (BHM) í máli þess gegn íslenska ríkinu, þar sem reynir á gildi laganna sem sett voru á verkfall BHM.

Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, þar sem ríkið lagði fram greinargerð í málinu. Í henni var frekari stoðum var skotið undir lögin sem sett voru á verkfallið. Aðalmeðferð málsins verður á mánudaginn og munu bæði BHM og ríkið leiða fram nokkurn fjölda einstaklinga til að gefa skýrslu.

Ástráður bendir á að í 74. grein stjórnarskrárinnar sé sérstaklega varinn réttur stjórnmála- og verkalýðsfélaga til að starfa vegna þjóðfélagslegs mikilvægis þeirra. „BHM lítur svo á að í þessu felist að stéttarfélög stefnanda séu varin fyrir afskiptum stjórnvalda, bæði að því er varðar frelsi þeirra til að gera kjarasamninga og líka til að fara í verkfall, sem er tæki til að knýja fram samninga,“ segir Ástráður.

Hann bendir á dóm Hæstaréttar í máli ASÍ gegn ríkinu, þar sem tekist var á um lögmæti verkfalla á sjómenn þessum málflutningi til stuðnings. „Stefnandi telur að í því máli hafi þessi framsetning verið staðfest með dómnum.“

Neyðarástand ekki til staðar

Ástráður bendir á að stjórnvöld geti eftir atvikum haft heimild og jafnvel skyldu til að stöðva löglega boðuð verkföll. „Þá verður slíkt bann að standast skoðun út frá þeim sjónarmiðum sem talin eru í 2. málsgrein 11. greinar mannréttindasáttmála Evrópu, eins og til að firra glundroða eða glæpum og til að koma í veg fyrir þjóðfélagslega upplausn.“ Hann segir BHM ekki telja að sú staða hafi verið uppi þegar lögin voru sett.

Til viðbótar segir hann að þau félög sem lögin voru sett á njóti ekki ótakmarkaðs verkfallsréttar. Það er ólíkt stöðunni sem var uppi þegar lög voru sett á sjómenn. Í lögum um kjarasamninga opinbera starfmanna séu undanþágulistar, þar sem tilgreindar séu ákveðnar stéttir sem mega ekki fara í verkfall.

„Tilvist þessara lista gera það að verkum að stór hluti félagsmanna BHM má ekki fara í verkfall,“ segir Ástráður. Þar er einnig í 20. grein gert ráð fyrir tilvist undanþágunefnda sem geti kallað fólk úr verkfalli. Þessum leiðum geti ríkið beitt til að afstýra neyðarástandi og hefur að mati BHM átt þátt í að koma í veg fyrir að það neyðarástand hafi skapast sem ríkið ber fyrir sig við lagasetninguna. „BHM telur að það hafi ekkert neyðarástand hafi verið uppi,“ segir Ástráður, og að löggjafinn hafi „bæði brotið 74. grein stjórnarskrárinnar og síðan brotið gegn stjórnskipulegu meðalhófi með því að láta lögin taka til hópa sem ekki voru í verkfalli.“

Ástráður Haraldsson
Ástráður Haraldsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert