Sól, sól og rokk og ról

Blíðviðrið lék við gesti tónlistarhátíðarinnar ATP í Ásbrú í gærkvöldi. Meðal hápunkta kvöldsins voru tónleikar sveitanna Ice Age, Drive like Jehu og Godspeed! You Black Emperor. 

Gestir komu sér fyrir á malbikinu fyrir utan tónleikana og sleiktu sólina og mátti líka sjá fólk sitja innan um lúpinurnar aðeins lengra frá svæðinu. Einnig höfðu margir slegið upp einskonar bilastæðapartý þar sem útilegustólum og ísköldum bjór var kippt út úr skottinu. Hátíðin fór enn og aftur afskaplega vel fram, tónleikar alltaf á hárréttum tíma og þrátt fyrir mikla mannmergð var stemningin frekar róleg og afslöppuð. 

Spenningurinn virtist mestur vera fyrir kanadísku rokksveitinni Godspeed!You Black Emperor, síðrokksveit sem fjölmargir kannast við að hafa hlustað á helteknir á unglingsárunum. Sveitin er þekktust fyrir klifun og mínímalísma, sömpl og lög sem spanna meira en tíu mínútur. Því er í raun meira um upplifun líkt og á klassískum tónleikum að ræða og mín eina athugasemd við áhugaverða tónleika er að ég hefði viljað sjá þá í sitjandi rými til að njóta upplifuninnar betur. 

Nokkrir gestir og ég þar með talin, brugðu því á það ráð að  setjast í stól og fara í nudd inni á tónleikunum. Skemmtileg hugmynd hjá ATP, en nudd í  tuttugu mínutur kostar tvö þúsund krónur og virtist vera mjög vinsælt miðað við stöðuga biðröð. 

Lokadagur ATP hátíðarinnar á sér stað í dag en meðal hápunkta eru íslenska hávaðaokksveitin Pink Street Boys, bandaríska sveitin Swans og breska sveitin Loop en þær síðarnefndu hafa náð ákveðnum "költ statusi" innan jaðartónlistarheimsins. 

Lesendur eru minntir á það að unnt er að kaupa staka miða á kvöldið í kvöld ef ekki er uppselt og nánari upplýsingar um dagskrá og miða er að finna á atpfestival.com

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert