Þokkalegur sumarhiti út vikuna

Áfram verður hlýtt í veðri á Suðvestur- og Vesturlandi í vikunni og nokkuð bjart veður. Heldur svalara verður á Norðuraustur- og Austurlandi og einhver úrkoma en þá aðallega seinna í vikunni.

Þetta segir Haraldur Eiríksson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. „Það verður þokkalegur sumarhiti á Suðvestur- og Vesturlandi og besta veðrið á landinu verður þar,“ segir hann. Þá segir hann norðanátt verða ríkjandi út vikuna og því verði svalara fyrir norðan. 

Haraldur segir ekki um neina hitabylgju að ræða en útilokar ekki að hiti verði enn meiri þegar líður á mánuðinn. „Júlí er að jafnaði hlýjasti mánuðurinn á árinu og ágúst er yfirleitt nokkuð góður líka. Það er nóg eftir af sumrinu,“ segir hann.

Veðurhorfur á landinu næsta sólarhringinn:

Norðaustlæg átt, 5-15 m/s, hvassast í Öræfum en hægari breytileg átt SV-til. Rigning eða súld með köflum austantil og með norðurströndinni. Skýjað V-til og dálítil rigning þar í kvöld og nótt, þurrt að kalla á Vestfjörðum. Skýjað með köflum og yfirleitt þurrt á morgun en áfram þokusúld með A-ströndinni. Hiti 8 til 18 stig, hlýjast fyrir norðan og vestan.

Veðurspá Veðurstofunnar út vikuna:

Á þriðjudag:
Norðaustan 5-13 m/s en hægari SV-lands. Víða léttskýjað V-til, annars skýjað og smáskúrir. Hiti 7 til 17 stig, hlýjast á V-landi.

Á miðvikudag:
Norðan 3-8 og bjart með köflum en skýjað A-lands. Hiti 5 til 16 stig, hlýjast á S- og V-landi.

Á fimmtudag:
Norðlæg átt og bjartviðri SV-lands, en skýjað og dálítil væta fyrir norðan og austan. Hiti 4 til 15 stig, mildast SV-til en kaldast á NA-verðu landinu.

Á föstudag og laugardag:
Norðaustlæg átt og víða skúrir en bjart með köflum SV-lands. Hiti 5 til 13 stig, mildast á S- og V-landi.

Á sunnudag:
Útlit fyrir norðanátt með rigningu NA- og A-lands, annars úrkomulítið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert