Eigum við að gifta okkur uppi á jökli?

Giftum okkar á jökli.
Giftum okkar á jökli. Ljósmynd/Styrmir Kári og Heiðdís

„Við reynum að hafa brúðkaupin okkar alls konar, bara eins og fólk vill hafa þau. Allt sem fólk vill svo lengi sem það virðir náungann og náttúruna. Fólk vill vera uppi á jökli, inni í jökli og í þyrlu. Við bíðum bara eftir ósk um brúðkaup undir vatni. Það er ótrúlega gaman að sinna þessu,“ segir Birna Hrönn Björnsdóttir, einn eiganda Pink Iceland, í samtali við mbl.is. Fyrirtækið sérhæfir sig í skipulagningu öðruvísi brúðkaupa og í ár eru 65 brúðkaup á vegum þeirra staðfest og fyrirspurnirnar streyma enn inn.

Hvað er rómantískara en fossar og falleg náttúra?
Hvað er rómantískara en fossar og falleg náttúra? Ljósmynd/Arctic Weddings Iceland

Fyrirmynd í mannréttindum

Pink Iceland hóf starfsemi og einblíndi á hinsegin markhóp en er nú orðinn stærsti innlendi brúðkaupsskipuleggjandinn og sjá um brúðkaup fyrir gagnkynhneigða og samkynhneigða. „Við sjáum bara um erlend pör, vegna þess að Íslendingar redda öllu sjálfir; frænka bakar, pabbi reddar bíl og allt þetta.“ Mörg samkynhneigðu pörin koma hingað vegna þess að þau líta á landið sem fyrirmynd í mannréttindum hinsegin fólks. „Hjónabönd samkynhneigðra eru lögleg hér, þau eru það ekki alls staðar og fyrir nokkrum vikum var það ekki raunin í mörgum fylkjum Bandaríkjanna. Fólk er að koma hingað mikið út af náttúrunni og vegna viðhorfa samfélagsins. Síðan eru alltaf einhverjir sem stinga af út í buskann til að forðast stórt brúðkaup.“

Þær eru ánægðar með þjónustuna og þakka fyrir allt.
Þær eru ánægðar með þjónustuna og þakka fyrir allt. Ljósmynd/Kristín María

Ævintýri að sjá um giftingarnar

Það má segja að öll flóran hafi séð um giftingar sem Pink Iceland hefur skipulagt. „Prestar, goðar, fulltrúar frá Siðmennt og sýslumenn. Við vinnum með fólki sem er með opin huga og er sveigjanlegt og ævintýragjarnt. Það tók tíma að finna prest sem var tilbúinn að fara í klukkutíma jöklagöngu upp á Sólheimajökul til að gefa fólk saman en við þurftum bara að finna rétta prestinn.“

Bryndís Valbjarnardóttir er einn af okkar uppáhalds prestum en hún hefur séð um giftingar frá stofnun, árið 2011. „Hún labbaði inn á skrifstofuna hjá okkur og lýsti yfir einlægum vilja til að vinna með okkur. Síðan hefur hún farið með okkur í þyrlubrúðkaup, jöklabrúðkaup og giftingar út um allt land og finnst þetta mjög gaman. Þeir sem vinna með okkur hafa líst yfir ánægju með samstarfið og ævintýrin sem þau taka þátt í.“

Hversu svalt er að gifta sig í þyrlu?
Hversu svalt er að gifta sig í þyrlu? Ljósmynd/Kristín María

Ekki „bara“ brúðkaup

Fólk þarf ekki að vera í brúðkaupshugleiðingum til að leita til fyrirtækisins. „Við erum með okkar eigin dagsferðir og þá fara leiðsögumennirnir okkar með fólk í alls konar ferðir. Einnig erum við bókunarþjónusta, bókum fyrir fólk í hestaferðir og ferðir með öðrum. Í janúar eða febrúar höldum við litla vetrarhátíð, litla pride hátíð. Við höfum gaman af nýsköpun og tökum nýjum verkefnum fagnandi.“

Eins og áður sagði var fyrirtækið stofnað árið 2011 en fór á fullt ári síðar. „Við erum þrjú sem eigum þetta og voru öll í vinnu annars staðar en ákváðum að taka stóra stökkið 2012 og hættum í öðrum vinnum og einbeittum okkur að þessu. Þá fórum úr miklu öryggi með flottri, fastri innkomu yfir í það að leigja lítið herbergi af samtökunum 78 og koma með þrjár fartölvur og ætla að láta allt gerast. Við notum bara eigið fé og erum mjög varkár og höfum farið varlega í eyðslu og vöxturinn er er hægur en öruggur hjá okkur.“

Fegurð.
Fegurð. Ljósmynd/Guðni Kristinsson

Ánægðir viðskiptavinir

Þeir sem sækja þjónustu Pink Iceland virðast almennt vera mjög ánægðir með það sem boðið er upp á. „Við erum á Tripadvisor og þar höfum við fengið 149 umsagnir, sem allar hafa verið fimm stjörnur. Fólk trúir varla þessum góðu umsögnum en eftir að hafa farið í ferðir og upplifað þær sjálft þá veit það að það sem það las var ekki of gott til að vera satt. Að heyra svona hrós er ómetanlegt og hvetur okkur áfram í þessu frábæra starfi,“ segir Birna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert