„Maður var alveg í öngum sínum“

Mardís ÍS-400 er strandveiðibátur sem gerir út frá Súðavík.
Mardís ÍS-400 er strandveiðibátur sem gerir út frá Súðavík. batarb.is

„Landhelgisgæslan hefur samband við okkur og biður okkur að kanna hvort við sjáum tiltekinn bát sem hvarf af ratsjá. Við förum strax að líta í kringum okkur og þá sjáum við þetta,“ segir Jóhann Sigfússon, en hann var meðal þeirra sem tóku þátt í björgunaraðgerðum í Aðalvík í morgun þar sem bátur sökk. Þremur skipverjum var bjargað en einn fórst.

Þegar skipverjar Mardísar litu í kringum sig sáu þeir mennina strax, en þeir voru á kili bátsins sem hafði sokkið.

Spurður hvort hann geti lýst tilfinningunni þegar hann sá mennina segir Jóhann það erfitt. „Þetta var ólýsanlegt, maður var alveg í öngum sínum að sjá þá þarna og komast ekki hraðar,“ segir hann en Mardís var upp undir tíu mínútur á leiðinni til mannanna. „Við náðum þeim um borð og fórum síðan og leituðum að líkinu og fundum það fljótt og settum það um borð. Síðan kom hraðskreiðari bátur og við færðum þá yfir.“

Jóhann segist ekki hafa áður lent í álíka lífsreynslu. „Ég hef áður tekið þátt í björgunaraðgerðum en ekki svona náið.“

Mennirnir voru síðan fluttir í bátnum Sæ­dísi ÍS-067 til Bolungarvíkur, þaðan sem þeir voru fluttir til Ísafjarðar til aðhlynningar. Að sögn Jóhanns voru mennirnir kaldir og blautir þegar þeim var bjargað um borð í Mardísi. „Þeir voru kaldir, blautir og skelfdir enda búnir að missa einn félaga. Það var hræðilegt að horfa upp á þetta og geta ekkert gert.“

Fyrri fréttir mbl.is:

Þremur bjargað af kili skipsins

Fórst við Aðalvík

Slysið varð skammt frá Aðalvík á Ströndum.
Slysið varð skammt frá Aðalvík á Ströndum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert