Spáði Castro rétt fyrir 42 árum?

Myndin og tilvitnunin umrædda, sem gengið hefur manna á milli …
Myndin og tilvitnunin umrædda, sem gengið hefur manna á milli á samfélagsmiðlum.

Undanfarnar vikur hefur gengið um samfélagsmiðla mynd af Fídel Castro, fyrrum leiðtoga Kúbu, þar sem vitnað er í ræðu hans frá árinu 1973. Er hann sagður hafa fullyrt að Bandaríkin myndu ekki leitast eftir stjórnmálasambandi við Kúbu fyrr en þar væri svartur forseti við völd og að í páfagarði réði ríkjum páfi frá rómönsku Ameríku.

Fjölmargir netverjar hafa deilt um hvort Castro hafi í raun látið þessi orð falla. Stefán Pálsson sagnfræðingur segir í samtali við mbl.is að líklega sé rétt eftir honum haft. „Hann hefur þó líklega séð þetta fyrir sér pínulítið öðruvísi. Það er ekki eins og það hafi farið fram mikil marxísk stjórnarbylting í Bandaríkjunum,“ segir hann léttur í bragði.

„Í raun eru þetta meira peningaöflin í Bandaríkjunum sem horfa nú til Kúbu, auk þess sem þrýstingur innfluttra Kúbverja í Bandaríkjunum á að viðhalda viðskiptabanninu fer minnkandi, þar sem börn og barnabörn þeirra hafa ekki sömu viðhorf og þeir eldri gagnvart stjórnvöldum á Kúbu.“

Alltaf ástæða til tortryggni

Stefán tekur fram að þótt vel geti verið að umrædd tilvitnun í Castro sé rétt með farin, sé alltaf ástæða til að tortryggja álíka tilvitnanir í sögufrægar persónur. „Það er svo mikið af svona tilvitnunum sem eru á sveimi. Helmingurinn af því er lygi en mér sýnist þessi vera nokkuð traust.“

Hann segir frægasta dæmið um vafasama tilvitnun felast í þeim orðum sem eignuð eru Marie Antoinette, „Af hverju borða þau ekki kökur?“. „Fyrir það fyrsta er bara vitnað í einhverja hefðarfrú og það í endursögn annars manns. Þá er mikið af tilvitnunum sem eru ranglega eignaðar Winston Churchill, sérstaklega hnyttin tilsvör og annað í þeim dúr.“

Stefán segir það skýrast af frægð Churchills umfram aðra samtíðarmenn. „Þá eru það einhverjir minna þekktir sem hafa sagt það sem eignað er Churchill. Það er voða lítið varið í að vera að vitna í einhvern óþekktan breskan pólitíkus frá miðri 20. öld. Þannig færist þetta frá þeim yfir á Churchill og eins með Lincoln, Washington og þar fram eftir götunum.“

„Vér mótmælum allir“

Þá nefnir hann fræga íslenska tilvitnun sem hann segir vafasama. „Meira að segja setningin „Vér mótmælum allir“, sem menn hafa eftir Jóni Sigurðssyni forseta, það er afbökun upp úr fundargerðarbókinni þar sem aðrir fundarmenn hafa tekið undir ákallið. Enda hefði Jón ekki farið að vísa í sjálfan sig í þriðju persónu.“

Þá eiga þessi tilvik sér hliðstæðu í heimi kvikmyndanna. „Hvergi nokkurs staðar í Star Trek heiminum kemur fram setningin fræga „Beam me up, Scotty“, þannig að það þarf oft lítið til að menn éti hlutina hver upp eftir öðrum. Þá líður ekki mánuður án þess að maður sjá einhverja speki eignaða Morgan Freeman á netinu,“ segir Stefán.

Þá þarf oft að lagfæra orð frægra manna eftir að þau hafa verið látin falla. „Menn átta sig ekkert á því í hita augnabliksins að þeir séu að fara að segja eitthvað ódauðlegt. Þá þarf að slípa til tilvitnanir og kannski eigna þær einhverjum svona almennilegum.“

Stefán Pálsson sagnfræðingur.
Stefán Pálsson sagnfræðingur. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert