Stærstu tónleikar í sögu Akureyrar

Sveppi og Villi í góðu stuði á Akureyri um helgina.
Sveppi og Villi í góðu stuði á Akureyri um helgina. Ljósmynd/Ein með öllu

Síðasti dagur fölskylduhátíðarinnar Einnar með öllu og Unglingalandsmóts UMFÍ á Akureyri er í dag, sunnudag, en dagskráin hefur staðið yfir frá því á fimmtudag. Mikill mannfjöldi er í bænum um helgina.

Í dag byrja hátíðahöldin með markaðsstemningu á Ráðhústorgi frá klukkan 12 til 17. Á milli 13 og 15 verður síðan boðið upp á „eina með öllu ... rauðkáli og kók í bauk“ í skógarlundinum við Iðnaðarsafnið. 

Auk þessa dýrindis réttar verður boðið upp á harmonikkutónlist, Bjarni Guðleifsson segir sögu skógarlundarins þar sem viðburðurinn fer fram en hún nær aftur til ársins 1903, Iðnaðarsafnið og Mótorhjólasafnið verða bæði opin og auk fastasýninga verða sérstakar kvennasýningar tengdar 100 ára kosningaafmæli kvenna, að því er segir í fréttatilkynningu.

Á Glerártorgi verður haldin Söngkeppni unga fólksins og klukkan 17 verður síðan hægt að skella sér í fría siglingu um Pollinn með eikarbátnum Húna II. 

Stóra stundin rennur upp klukkan níu í kvöld þegar Sparitónleikarnir hefjast á Samkomuhúsflötinni en þá verður fjölskylduhátíðinni Einni með öllu og Unglingalandsmót UMFÍ formlega slitið.

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri flytur ávarp og fram koma meðal annars sigurvegarar Söngkeppni unga fólksins, Axel Flóvent, Rúnar Eff og hljómsveit, Úlfur Úlfur, Steindi jr. og Bent og hljómsveitin Amabadama. Kynnir á tónleikunum er Hilda Jana Gísladóttir sjónvarpskona. 

Að tónleikum loknum verður haldin flugeldasýning á Pollinum sem björgunarsveitin Súlur sér um. Munu smábátar sigla á Pollinum og kveikja á rauðum blysum. Ætla má að þessi viðburður verði stærsti tónleikaviðburður í sögu Akureyrar, að því er segir í tilkynningunni.

Sveppi og Páll Óskar Hjálmtýsson.
Sveppi og Páll Óskar Hjálmtýsson. Ljósmynd/Ein með öllu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert