Hvessir sumstaðar á morgun

Það hvessir víða á morgun.
Það hvessir víða á morgun. Kristinn Ingvarsson

Það hvessir sumstaðar á landinu á morgun af norðaustan. Í Öræfasveit má reikna með hviðum allt að 30 til 35 m/s. Eins er hætt við sandfoki á Sprengisandsleið og norðan Landmannalauga.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni. Á heimasíðu Veðurstofunnar segir að búast megi við allt að 18 m/s og snörpum vindhviðum sunnan Vatnajökuls og á sunnanverðum Austfjörðum og einnig sunnantil á Snæfellsnesi. Einnig má búast við hvassviðri við Breiðafjörð og Vestfirði undir kvöld á morgun.

Varasamt verður fyrir farartæki sem viðkvæm eru fyrir vindi.

Á höfuðborgarsvæðinu má búast við norðaustlægri eða breytilegri átt, bjartviðri og hita á bilinu 10 til 18 stig.

Hjáleið fram í september

Vegagerðin greinir frá því að vegna framkvæmda við undirgöng undir Vesturlandsveg á móts við Aðaltún í Mosfellsbæ, verði umferð beint um hjáleið. Hraði er tekinn niður í 50 km/klst. Áætlað er að nota þurfi hjáleiðina fram yfir miðjan september og að framkvæmdum ljúki í nóvember.                       

Vegfarendur eru beðnir velvirðingar á óþægindum sem þetta veldur og eru hvattir til að fylgja þeim merkingum og leiðbeiningum sem uppi eru hverju sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert