12 af 220 hafa fengið hæli

Stór hluti flóttamanna eru börn.
Stór hluti flóttamanna eru börn. AFP

Íranski maðurinn sem helti yfir sig eldfimum vökva utan við Rauða krossinn í dag er einn af 220 hælisleitendum sem sótt hafa um alþjóðlega vernd frá því í ágúst í fyrra. Í vikunni var ár liðið síðan Rauði krossinn tók við allri réttindagæslu fyrir hælisleitendur en áður hafði hún verið í höndum lögmanna með talsmannakerfisins svokallaða.  32 hafa sótt um hæli það sem af er ágústmánaðar og hafa aldrei fleiri sótt um vernd á einum mánuði. 

„Það er alltaf stefnt að því að málsmeðferð eigi ekki að taka lengur en þrjá mánuði eða um hálft ár hið lengsta en vegna skorts á starfskrafti hjá Útlendingastofnun hefur þetta oft dregist,“ segir Björn Teitsson hjá Rauða krossinum. Hann segir ekki nægilega mikið lagt í að sinna málum hælisleitenda og að myndast hafi hali mála í gamla talsmannakerfinu sem sé núna fyrst verið að greiða úr.

Íranski hælisleitandinn hefur verið á landinu í sex mánuði en að hann hafi ekki sótt um hæli strax og hann kom til landsins. Segir Björn að hans málsmeðferð sé enn opin. Það sé rangt sem komið hefur fram í fjölmiðlum í dag um að umsókn mannsins hafi verið hafnað. 

Í tilkynningu frá Útlendingastofnun kom fram að maðurinn hafði þegar fengið hæli í öðru Evrópuríki en að málsmeðferð hans hafi tafist vegna bágs andlegs ástands. 

Frétt mbl.is: Hefur fengið hæli annars staðar

Lögreglan og slökkvilið við hús Rauða Krossins í dag.
Lögreglan og slökkvilið við hús Rauða Krossins í dag. mbl.is/Júlíus

Aðeins 12 fengið hæli 

Sú er þó oftar en ekki raunin fyrir þá hælisleitendur sem hingað leita. Eins og áður segir hafa 220 sótt um alþjóðlega vernd frá því í ágúst í fyrra en af þeim hafa aðeins 12 hlotið hæli. 44 fengu neikvæða niðurstöðu eftir efnislega meðferð, þ.e. var synjað um hæli, en af þeim kærðu 41 niðurstöðuna. 

Þá eru ótaldir þeir hælisleitendur sem hafa haft viðkomu í öðru Schengen landi fyrir komuna hingað. Þeir eru sendir aftur til þess lands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og er það á ábyrgð viðkomandi lands að taka fyrir umsókn þeirra. Björn segir 33 hælisleitendur hafa verið senda aftur á þessum forsendum. 

„Sú niðurstaða er oft kærð, t.d. ef viðkomandi upplifir sig í hættu í því ríki sem hann kom fyrst til. Svo eru einhverjir sem hefur verið neitað af því að þeir hafa verið komnir með alþjóðlega vernd í öðru landi. 12 slíkir hafa verið sendir tilbaka.“

Björn segir 95 af málunum 220 enn til meðferðar, þar með talin einhver þeirra sem áður hafa fengið neikvæða niðurstöðu, og að af þeim séu 19 sem komin séu fram yfir þriggja mánaða málsmeðferðar viðmiðið.

„Aðalmálið er alltaf að málsmeðferðin sé sanngjörn og mannúðleg. Það er okkar mat að hún sé það algjörlega. Það skiptir lykilmáli.“

Fjölskylda bíður eftir að vera hleypt inn í Makedóníu.
Fjölskylda bíður eftir að vera hleypt inn í Makedóníu. AFP

„Sumir hafa bara horfið“

Séu tölurnar teknar saman er ljóst að hér hefur ekki verið gerð grein fyrir öllum þeim 220 flóttamönnum sem sótt hafa um hæli á síðastliðnu ári. Í allra minnsta lagi vantar 24 upp á en mjög líklegt er að þeir séu fleiri. Björn gefur á því þrjár skýringar.

„Sumir hafa dregið umsókn tilbaka og einhverjir hafa afþakkað talsmannaþjónustu Rauða krossins. Sumir hafa bara horfið.“

Björn segir erfitt að segja hvort hækkandi fjöldi flóttamanna í þessum mánuði tengist þeim gríðarlega fjölda flóttamanna sem flýr yfir miðjarðarhaf á degi hverjum. Segir hann flóttamannavandann í heild sinni alvarlegt vandamál og úrlausnarefni fyrir okkur öll.

„Það hafa aldrei verið fleiri flóttamenn í heiminum í mannkynssögunni. Við stöndum frammi fyrir miög miklu vandamáli og við getum alveg lagt okkar af mörkum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert