„Mannlegur harmleikur“

Ólöf Nordal innanríkisráðherra.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þarna erum við bara að verða vitni að mannlegum harmleik,“ segir Ólöf Nordal innanríkisráðherra um atvikið við Rauða krossinn í Efstaleiti, þar sem hælisleitandi hellti yfir sig eldfimum vökva. „Það er voða lítið annað sem maður getur sagt.“

Ólöf var stödd í Berlín þegar mbl.is náði tali af henni og hafði ekki aðrar upplýsingar um málið en birst hafa í fjölmiðlum. Spurð að því hvort hún telji hælisleitendur fá nægan sálrænan stuðning segir hún að yfirvöld hafi unnið að því að standa betur að móttöku fólks sem hingað leitar.

„Við vitum hins vegar að margt af því fólki sem er að koma til okkar hefur gengið í gegnum miklar þjáningar og maður getur kannski ekki alveg búið sig undir alla hluti í því, þótt maður vildi. En þetta sýnir að þessi hópur sem er að koma frá þessum stríðshrjáðu löndum, og úr brotnum og erfiðum aðstæðum, er í miklum andlegum erfiðleikum. Þannig að við verðum auðvitað að líta til þessa stuðningskerfis okkar. Og við erum að reyna að gera það,“ segir hún.

Kallar atburðurinn í dag á viðbrögð af hálfu ráðuneytisins?

„Já, í framhaldi af þessu mun ég að sjálfsögðu reyna að fá upplýsingar um hvernig málum er háttað. Allt í því skyni að bæta og gera betur. Það er enginn vafi á því, við verðum alltaf að gera það,“ segir ráðherra.

Frétt mbl.is: Hellti eldfimum vökva yfir sig

Frétt mbl.is: Svipuð uppákoma fyrir fjórum árum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert