Ein uppsögn geislafræðings dregin til baka

Landspítalinn.
Landspítalinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

17 uppsagnir geislafræðinga komu til framkvæmda í dag á Landspítalanum, en 77 geislafræðingar störfuðu áður á spítalanum. Aðeins einn geislafræðingur af þeim 18 sem sögðu upp dró uppsögn sína til baka, en tveir nýir geislafræðingar verið ráðnir inn á spítalann. Það þýðir að enn vantar 15 geislafræðinga til starfa á spítalanum, en þó er ekki um 15 stöðugildi að ræða. Starfsemi spítalans verður því áfram í hægagangi.

Páll Matthíasson, forstjóri spítalans, segir starfsemi röntgendeildar vissulega vera í hægagangi en að stjórnendur á sviðinu fundi með geislafræðingum í dag til að skoða hvernig hægt verði að bregðast við uppsögnunum með því að endurskipuleggja starfsemina þannig að áhrif uppsagnanna verði sem minnst.

„Síðan verða aftur auglýst störf geislafræðinga, og við hvetjum þá geislafræðinga sem sögðu upp, og aðra, til að sækja um,“ segir Páll. „Fyrst þurfum við að meta hvað við getum gert með breyttu skipulagi og hversu marga við fáum til baka þegar við auglýsum upp á nýtt.“ Hann segir inni í myndinni að leysa það sem út af stendur með því að reyna að fá fólk erlendis frá í störf geislafræðinga. „Það er hægt en við kjósum frekar að hafa okkar eigið fólk, en við verðum auðvitað að bera virðingu fyrir uppsögnunum.“

Hann segir þegar hafa gengið ágætlega að vinna á biðlistum eftir myndgreiningum, en að það muni truflast tímabundið. „Þeir biðlistar sem við höfum mestar áhyggjur af núna eru biðlistar eftir aðgerðum, sem velta í sjálfu sér á öðrum hlutum að mestu leyti.“

Þeirra á meðal sé fjármagn sem þurfi til að vinna niður biðlista. „Það er skilningur hjá stjórnvöldum á því og verið að vinna í því máli.“

Fljóta ekki sofandi að feigðarósi

Mánuður er enn til stefnu þangað til uppsagnir hjúkrunarfræðinga sem sögðu upp í tengslum við verkfallið taka gildi. Í gær höfðu 52 af þeim tæplega 280 hjúkrunarfræðingum sem sögðu upp dregið uppsögn sína til baka. Stjórnendur spítalans vona þó að sem flestir hjúkrunarfræðingar dragi uppsagnir sínar til baka.

Páll segir uppsagnir hjúkrunarfræðinga gætu haft miklar afleiðingar. „Þær yrðu mestar þar sem hæst hlutfall hjúkrunarfræðinga segir upp á stakri starfseiningu. Hins vegar er allur september til stefnu og það kemur skýrt fram að uppsagnirnar koma ekki eingöngu til vegna kjara, heldur líka vegna starfsaðstæðna, skipulags starfseminnar og annarra þátta sem lúta að góðum vinnustað.“ Hann segir stjórnendur spítalans hafa unnið mjög markvisst að því að auka gæði vinnustaðarins Landspítala. Það sé gert í samstarfi við starfsfólk.

Uppsagnir hjúkrunarfræðinga á gjörgæslu- og skurðdeildum gætu haft sérstaklega alvarlegar afleiðingar fyrir spítalann, þó svo að allar uppsagnir hafi að sjálfsögðu áhrif. Páll segir stjórnendur spítalans vonast eftir að sem flestir hjúkrunarfræðingar dragi uppsagnir sínar til baka á þeim mánuði sem er til stefnu. Spítalinn hafi hins vegar áætlanir til að bregðast við því gangi uppsagnirnar eftir. „Áhrifin verða mismikil eftir því hvernig uppsagnirnar dreifast. Auðvitað höfum við áhyggjur á vissum stöðum þar sem hátt hlutfall hefur sagt upp og verðum að vona að það takist að sannfæra fólk um að Landspítalinn sé staður sem er þess virði að helga sína starfskrafta. Að öðrum kosti verðum við að leita annarra leiða. Við höfum viðbragðsáætlanir fyrir mismunandi sviðsmyndir og fljótum ekki sofandi að feigðarósi,“ segir Páll.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert