Erfiðast að ná að slaka á

Davor Purusic lögfræðingur
Davor Purusic lögfræðingur mbl.is/Ómar Óskarsson

Þegar Davor Davíð Pursic kom hingað til lands frá Sarajevó í Bosníu og Hersegóvínu þann 8. október árið 1993 hafði hann legið á sjúkrahúsi í marga mánuði með sýkingar í sárum sem hann hlaut þegar hann lenti í sprengjuárás í stríðinu sem geisaði í landinu.

Við komuna til landisins var hann þegar í stað fluttur á sjúkrahús þar sem hann dvaldi í hátt í tvö ár. Hann vildi ekki snúa til baka til heimalandsins þegar hann hafði náð heilsu á ný enda hræddur um að slasast á ný. Í kjölfarið fékk hann leyfi til að dvelja hér á landi.

Davor ræddi við mbl.is um það sem tók við hér á landi en hann segir að helsta áskorunin hafi verið að ná að slaka á eftir álagið sem fylgdi því að búa í stríðshrjáðu landi. Í dag er hann giftur tveggja barna faðir og íslensku ríkisborgari, sjálfstætt starfandi lögmaður og nýtur þess að taka þátt í samfélaginu á Íslandi. Þegar hann kom hingað til lands var hann með menntun sem samsvaraði íslensku stúdentsprófi.

Nógu alvarlegt til að flytja hann úr landi

Bosnía og Hersegóvína er á vestanverðum Balkanskaga í Suðaustur-Evrópu og nefnist höfuðborg landins Sarajevó. Landið tilheyrði Júgóslavíu fram til 5. apríl 1992 en þá lýsti landið yfir sjálfstæði.

Króatía og Slóvenía lýstu yfir sjálfstæði 1991 og þá voru örlög Bosníu í raun ráðin. Haldið var þjóðaratkvæði um það hvort Bosnía-Hersegóvína ætti að lýsa yfir sjálfstæði. Múslímar og Króatar í Bosníu greiddu atkvæði með sjálfstæði, en Bosníu-Serbarnir sniðgengu atkvæðagreiðsluna og vildu áfram mynda ríki ásamt Serbíu.

Opinberlega hófst Bosníustríðið 6. apríl, sama dag og Evrópusambandið viðurkenndi Bosníu sem sjálfstætt ríki. Stríðið stóð í þrjú og hálft ár og var hart barist. 100 þúsund manns féllu og 4,4 milljónir manna, um helmingur íbúanna, flúðu heimili sín.

Þegar Davor særðist var þekking heilbrigðisstarfsfólks til staðar í landinu en aðstaðan á sjúkrahúsum var aftur á móti ekki nógu góð. „Þegar ég kom hingað var ég með sýkingar í öllum sárum,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Læknateymi Alþjóða Rauða krossins og Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna mátu ástand Davors svo alvarlegt að hann uppfyllti skilyrði til að vera fluttur úr landi til að fá læknishjálp.

„Þú ert á leiðinni til Íslands“

Þar með var björninn ekki unninn heldur fór Davor á biðlista og beið lengi á sjúkrahúsinu. Finna þurfti land þar sem hægt væri að taka á móti honum og veita honum viðeigandi aðstoð. „Ég var settur á biðlista og beið í Sarajevo í næstum tíu mánuði. Þá var mér tilkynnt að ég væri á leið til Íslands,“ segir Davor. Hann gat ekki valið áfangastað, heldur varð hann að velja það sem í boði var þá ef hann vildi aðstoð.

Ekki vissi hann mikið um eyjuna lengst úti í hafi þegar kallið kom. „Ég vissi hvar Ísland var og kannski smá grundvallarupplýsingar en það var ekki meira. Ég nýtti að sjálfsögðu tímann frá því að ég fékk tilkynninguna og þangað til að ég lagði af stað til Ísland og reyndi að afla eins mikilla upplýsinga og ég gat,“ segir Davor

Við komuna til Íslands voru Davor og annar maður sem kom einnig til að fá læknishjálp fluttir beint á sjúkrahús. Þeir fóru beint í einangrun vegna sýkinga í sárum þeirra en Davor dvaldi á sjúkrahúsi í hátt í tvö ár eftir komuna hingað.

Vildi ekki hætta á að vera skotinn aftur

„Ég kom hingað 8. október 1993. Okkur var tilkynnt og við vorum látin skrifa undir skjal þess efnis áður en við lögðum af stað frá Sarajevo að við værum að skuldbinda okkur að við ætluðum ekki að sækja um hæli í gestgjafalandinu og við ætlum að koma fara aftur til Bosníu að læknismeðferð lokinni,“ segir Davor.

Eftir nokkra mánuði hafði hann kynnst landi og þjóð, eða öllu heldur Reykjavík, leiðréttir Davor, enda hafði hann ekki heilsu til að ferðast mikið á þessum tíma. „Ég einfaldlega spurði, er mikið mál að ég verði hérna áfram,” segir hann og bætir við að hálfpartinn hafi verið gert ráð fyrir að hann vildi komast aftur til heimalandisins sem fyrst.

„Stríðið geisaði enn í Bosníu á þessum tíma og ég sá ekki tilgang í að fara aftur heim eftir læknismeðferð og eiga hættu á að vera skotinn aftur um leið og ég gengi út úr flugvélinni,“ segir Davor. Viku eftir að hann lagði fram fyrirspurnina fékk hann heimsókn þar sem hann var spurður hvort honum væri alvara, hvort hann vildi í alvöru vera áfram hér á landi. „Ég sagði já, annars hefði ég ekki spurt,“ segir Davor og stuttu síðar var hann kominn með dvalarleyfi.

Allavega ekki genginn af göflunum

„Það var bæði erfitt og ekki,“ segir Davor, aðspurður um hvort erfitt hafi verið að aðlagast íslensku samfélagi. Hann segir Ísland ekki svo frábrugðið heimalandi hans, hér sé þessi klassíska evrópska menning sem hann hafi átt að venjast í Bosníu.

„En samt, þegar maður kemur úr stríðsátökum með öllu því stressi sem því fylgir tekur ákveðinn tíma að slaka á og komast í eðlilegt ástand. Ég geri ráð fyrir að þetta hafi gengið nokkuð vel, ég er allavega ekki genginn af göflunum,“ segir Davor.

„Það var í rauninni erfiðast að slaka á þegar hingað var komið, þetta er ekki eitthvað sem maður getur bara slökkt á og þá er það búið. Þetta tók tíma og krafðist þolinmæði og skilnings sem ég hafði sem betur fer hjá fólki í mínu umhverfi,“ segir Davor.

Vildi geta lesið blöðin og fylgst með

Davor talar góða og skilmerkilega íslensku. „Þetta er ekki sjálfgefið, þetta var bara kennsla og maður er enn að læra eitthvað nýtt í dag,“ segir hann, aðspurður um hvernig íslenskunámið hafi gengið. Davor vildi geta tekið þátt í samfélaginu, lesið dagblöðin og fylgst með því sem var í gangi í samfélaginu hverju sinni og hefur hann greinilega náð góðum árangri.

„Þetta er ekki búið en ég er kominn langa leið. Ég er meðvitaður um að ég geri málfarsvillur sem ég er að reyna að leiðrétta en þetta tekur bara sinn tíma. Allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi, þetta er mjög einfalt,“ segir Davor.

Sjálfur talaði hann góða ensku við komuna til Íslands árið 1993. Hann segist hafa skilning með þeim sem koma hingað og kunna hvorki íslensku né ensku og eigi erfitt með að tjá tilfinningar sínar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert