OECD: Horfur góðar á Íslandi

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, og Ángel Gurría, framkvæmdastjóri OECD, á blaðamannafundinum …
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, og Ángel Gurría, framkvæmdastjóri OECD, á blaðamannafundinum í dag. mbl.is/Golli

Áskoranir eru enn til staðar þó að árangur hafi náðst og horfur í íslenskum efnahagsmálum séu góðar. Þetta er meginniðurstaða nýrrar skýrslu OECD um Ísland. Stofnunin fagnar áformum um að aflétta fjármagnshöftum en segir að nýgerðir kjarasamningar krefjist aukins aðhalds til að tryggja árangur áfram.

Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD) gefur út skýrslur af þessu tagi á tveggja ári fresti og var nýja skýrslan um Ísland kynnt í dag. Ángel Gurría, framkvæmdastjóri stofnunarinnar sem staddur er í heimsókn hér á landi, kynnti helstu niðurstöður skýrslunnar á blaðamannafundi, ásamt Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra. 

Bent er á að verðbólga hafi minnkað, erlend staða þjóðarbúsins batnað, opinberar skuldir lækkað, atvinnuleysi minnkað og færri fjölskyldur búi við fjárhagserfiðleika. Áætlun um afnám fjármagnshafta er fagnað en hvatt er til varfærni við losunina sem raski ekki efnahagslegum stöðugleika.

OECD segir miklar launahækkanir sem ákveðnar voru í nýlegum kjarasamningum langt umfram framleiðniaukningu og verðbólgumarkmið og þær munu krefjast aðhalds í peningamálum sem dragi úr hagvexti. Jöfnuður hafi náðst í ríkisfjármálum og opinberar skuldir hafi lækkað. Nýgerðir kjarasamningar geti haft neikvæð áhrif á sjálfbærni í ríkisfjármálum til lengri tíma. Auka þurfi aðhald til að tryggja áframhaldandi árangur.

Þurfa að hækka stýrivexti og tryggja sjálfstæði Seðlabankans

Á meðal þeirra tilmæla sem stofnunin beinir til íslenskra stjórnvalda er mikilvægt sé að vinna að losun fjármagnshafta og ný áætlun stjórnvalda sé mikilvægt skref í þá átt. Starfsemi fjármálastöðugleikaráðs geti stutt við góða útkomu.

Hækka þurfi stýrivexti til að tryggja að verðbólga fari ekki úr böndunum, eins og peningastefnunefnd hafi þegar boðað og hafið vaxtahækkunarferli. Stefna ætti að lítilli og stöðugri verðbólgu til millilangs tíma og lágmarka inngrip á gjaldeyrismörkuðum nema til að hindra skyndilegar sveiflur í gengi.

Þá segir í skýrslunni að tryggja þurfi sjálfstæði Seðlabankans og trúverðugleika án pólitískra inngripa. Mælt er með að peningastefnunefndin starfi áfram.

Frétt á vef fjármálaráðuneytisins um skýrsluna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert