„Það sem er handa mér er handa þeim“

Myndin sem Gissur deildi á Twitter-síðu sinni af flóttamanninum í …
Myndin sem Gissur deildi á Twitter-síðu sinni af flóttamanninum í Beirút. mynd/Gissur Símonarson

Fjáröflun sem íslenski blaðamaðurinn Gissur Símonarson setti af stað fyr­ir mann sem hann sá hald­andi á sof­andi dótt­ur sinni að selja penna á göt­um Beirút hefur vakið heimsathygli og hafa safnast tæplega 170.000 bandaríkjadalir á aðeins fimm dögum. En hver er þessi pennasölumaður?

Abdul Halim Attar flúði til Líbanon frá Sýrlandi fyrir þremur árum síðan með tveimur börnum sínum. Dóttir hans er næstum því fjögurra ára gömul en sonur hans níu ára. Attar er einstæður faðir en náði að finna sér litla íbúð í niðurníddu hverfi Beirút eftir að fjölskyldan flúði Sýrland. Hann byrjaði að selja penna til þess að halda fjölskyldu sinni á floti. Þetta kemur fram í viðtali Al Jazeera við Attar.

Hann seldi penna á hverjum degi með dóttur sína í fanginu. Á góðum degi þénaði hann um 35 bandaríkjadali. En eins og fyrri hefur komið fram breyttist líf Attar til muna í síðustu viku þegar að Gissur tók af honum mynd og hóf söfnunina.

„Ég vil nota alla peninga sem ég fæ til þess að bjarga öðrum Sýrlendingum,“ sagði Attar. „Það sem er handa mér er handa þeim.“

Attar sagði jafnframt í samtali við Al Jazeera að honum liði eins og hann væri staddur í draumi. „Ég trúi því ekki enn að þetta sé að gerast fyrir mig. Ég skil ekki hvað er í gangi. Einn daginn vaknaði ég og fór í vinnuna. Allt í einu komu mörg hundruð manns upp að mér og reyndu að tala við mig. Ég skildi ekki af hverju.“

Attar viðurkenndi að honum hafi ekki litist á blikuna í fyrstu og óttaðist um að þetta væri tilraun til þess að taka af honum börnin. „Fyrst ætlaði ég að flýja,“ sagði Attar en hann áttaði sig fljótt á því að hann væri orðinn heimsfrægur.

Þegar blaðamaður Al Jazeera spurði Attar af hverju hann ákvað að selja penna er svarið einfalt. „Allir þurfa penna,“ sagði Attar og brosti. „Sama hvað þú gerir í lífinu, sama hver þú ert, þú munt þurfa penna.“

Hér má sjá fjáröflunina til styrktar Attar

Fyrri fréttir mbl.is:

Hefur safnað 18 milljónum fyrir pennasölumanninn

Safnar fyrir sýrlenskan flóttamann

Gissur Símonarson
Gissur Símonarson
Abdul og dóttir hans Reem
Abdul og dóttir hans Reem Af Twitter
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert