Kerfið ekki endilega sanngjarnt

Verzlunarskólanemendur á peysufatadaginn fyrir nokkrum árum.
Verzlunarskólanemendur á peysufatadaginn fyrir nokkrum árum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Meðaleinkunn nýnema í Verslunarskóla Íslands hefur hækkað úr 8,7 í 9,1 á tíu árum og tala sumir um að einkunnaverðbólga sé í gangi. Hugtakið komst í umræðuna í vor þegar að mörgum námsmönnum með yfir níu í grunnskólaeinkunn var hafnað um inngöngu í skólann. Málið var rætt á málþingi í skólanum í gærkvöldi. 

Átta fulltrúar framhaldsskóla, grunnskóla, Menntamálastofnunnar og nemenda tóku þátt. Flestir voru sammála um að kerfið í dag væri nokkuð ósanngjarnt og að samræmt hæfnipróf væri eflaust besta lausnin. Fleiri þættir en aðeins prófið myndi gilda til lokaeinkunnar í grunnskóla en að mati þátttakenda gæti það orðið til þess að krakkarnir sætu allir við sama borð.

Töluverður munur á einkunnamati grunnskóla og framhaldsskóla

Ingi Ólafsson, skólastjóri Verslunarskóla Íslands sagði það staðreynd að einkunnir nýnema í skólanum hafi hækkað síðustu tíu ár. Hann sagðist ekki hafa ástæðuna á þessari hækkun en benti á að einkunnirnar hefðu rokið upp sérstaklega eftir að samræmd próf voru afnumin.

Jón Pétur Zimsen, skólastjóri Réttarholtsskóla, sagðist ekki líta svo á að einkunnaverðbólga sé í gangi í grunnskólum landsins. „Mér finnst það ákveðinn áfellisdómur á ansi marga grunnskólakennara. Að þeir séu að hækka einkunnir án þess að það sé innstæða fyrir því. Ég veit að krakkarnir hérna inni hafa öll lagt mikið á sig til þess að komast inn í Versló.“

Jón Pétur sagði það jafnframt að það væri töluverður munur á einkunnamati grunnskólanna og framhaldsskólana og að skólaeinkunnir úr grunnskólunum væru æði misjafnar. Hann benti á að oft væri hlutfallið á milli vinnueinkunnar og þekkingareinkunnar mismunandi eftir skólum og það hefði áhrif. Hann sagði að í grunnskólum væri mikið um símat. „Ég held að krökkum hugnist það oft betur, að vinna í lotum, kannski í hóp. Það stýrir líka einhverskonar hækkun á einkunnum,“ sagði Jón Pétur.

Tóku inn 8 bekki í staðinn fyrir 10

Bjarni Gunnarsson konrektor Menntaskólans í Reykjavík benti á að líklega hafi skert fjármagn haft áhrif á inntöku í vinsælustu skólana í haust. Skólarnir fengu minni fjárheimildir og gátu ekki tekið inn eins marga nýnema. Til dæmis tók MR inn átta bekki en yfirleitt hafa verið teknir inn tíu. „Þá hækka mörkin,“ sagði Bjarni.

Hann sagði jafnframt að þegar að samræmdu prófin voru tekin út varð stökk í einkunnum nemanda við útskrift úr grunnskóla. „Einkunnir úr samræmdu prófunum voru oft lægri en skólaeinkunnir og höfðu temprandi áhrif. Ég held að hvarf samræmdu prófanna útskýri þetta stökk.“

Samkeppnin mögulega grimmari

Lárus H. Bjarnason rektor Menntaskólans við Hamrahlíð sagði að mögulega væri hægt að rekja þessa miklu hækkun á einkunnum nýnema í Versló til þess að samkeppnin sé orðin meiri. „Samkeppnin kann að vera orðin miklu grimmari í Versló. Það er meira af afburðarnemendum sem sækja þangað núna. Við skulum hafa það hugfast. Svo blasir alveg við að ef framhaldsskólar  þurfa að greina á milli nemenda er mikilvægt að mælikvarðinn sé svo nákvæmastur. Þetta verður alltaf smá ónákvæmt þegar skólar gefa þetta upp á sitt einsdæmi,“ sagði Lárus. „Það hafa samræmd próf sér til ágætis, það verður ekki augljós mismunun eftir skólum.“

Ingi lagði síðar áherslu á það að hann væri ekki að kalla eftir því að samræmdu prófin sneru aftur. „Ég er ekki að gagnrýna námsmat grunnskólana en það sem ég hef gagnrýnt er að þetta námsmat er ekki samræmt. Þannig er þetta ekki sanngjarn mælikvarði til þess að gera upp á milli nemenda. Ég er ekki að kalla eftir samræmdu prófunum aftur en eins og nafnið gaf til kynna voru þau samræmd með sama mælikvarðann á alla.“

Hækkun einkunna helst í hendur við samkeppnina

Menntamálastofnun var með tvo fulltrúa á málþinginu, Arnór Guðmundsson, forstjóra og Kristrúnu Birgisdóttur.

Arnór sagði mikilvægt að muna að grunnskólinn horfir öðruvísi á nemendur en framhaldsskólinn og að mat á þeim væri kannski lengra komið með hæfniviðmið heldur en framhaldsskólar. „Með nýju námskránni er hugsað um skólakerfið í heild. Þar er verið að skoða breiðari hæfni frekar en þekkingu á bókgreinum. Nemendur koma inn í framhaldsskóla með góðar einkunnir en eru síðan keyrðir niður í einkunnum. Maður sér það líka í háskólum en þar eru komin hæfnipróf og ég held að kennslan muni breytast í kjölfarið.“

Kristrún sagðist hafa skoðað sérstaklega hvernig einkunnir hækkuðu á milli ára. „Það er magnað a sjá að mesta hækkunin er þar sem samkeppnin er mest. Ef við skoðum skóla sem taka á móti öllum góðum nemendum virðist sem þeirra einkunnir hafi ekki hækkað mjög mikið,“ sagði Kristrún og bætti við að einkunnirnar hækki þar sem aðsóknin er mest.

Inntökupróf í framhaldsskóla þarf að vera samræmt

Spurt var um skoðun þátttakenda á inntökuprófum í menntaskóla. Flestir voru á því máli að það væri ágæt hugmynd en þá þyrfti prófið að vera samræmt. „Það ættu ekki að vera sérpróf í sérskóla því annars eykst mismunun,“ sagði Kristún og Arnór bætti við að nú væri Menntamálstofnun að skoða hæfnipróf sem nýta mætti við inntöku í framhaldsskóla. Það yrði þá hæfnipróf sem byggði á öllum grunnfögum en þar sem frekar yrði skoðað hvernig nemandi beiti þekkingunni á ákveðin vandamál í prófinu.

Jón Pétur benti á að það myndi mögulega fela í sér óþolandi þrýsting í grunnskólunum að kenna fyrir inntökupróf fyrir hvern skóla. „Miklu betra væri að hafa samræmt hæfnipróf sem yrði aðgengilegt í öllum greinum, ekki aðeins elítugreinum.“

Ingi tók í sama streng og fagnaði orðum Arnórs um mögulegt samræmt hæfnipróf. „Ég hef mikið verið að velta fyrir mér og ekki komist að niðurstöðu um hvaða viðmið við notum næsta vor þegar við veljum nemendur í skólann. Ef allir umsækjendur eru með B eða allir A þá veit ég ekki hvernig þetta verður gert. En það verður enn erfiðara að velja þetta á sanngjarnan hátt. En ef það kemur samræmt hæfnipróf myndi ég fagna því mjög."

Meiri lýsing á bakvið A en 8,9

Spurning barst úr salnum um nýja bókstafakerfið og af hverju væri ekki kosið að nota nákvæmari talnaskala. „Með þessum bókstöfum erum við að mæla hæfni sem er breiðara hugtak en þekking. Bakvið hvern bókstaf liggur lýsing sem fylgir ekki með nákvæmum tölum. Það er til dæmis meiri lýsing á bakvið A en 8,9. Einstaklingur sem fær A getur ákveðna hluti sem einstaklingur með B getur kannski ekki,“ útskýrði Arnór.

Óskað var eftir skoðunum stjórnenda framhaldsskólanna á þessari breytingu og sagði Ingi að hugmyndafræðin væri mjög góð hugsun. Með kerfinu væri hægt að setja nemendur frekar í áfanga við hæfi eftir því hvort þeir fá A eða B. „En það er erfiðara fyrir bekkjarskóla því þar taka allir það sama. Við getum ekki annað en sett A og B í sama áfangann. Þetta verður erfiðara þegar við þurfum að gera upp á milli nemenda og velja á milli.“

Þorkell Diego, yfirkennari Verslunarskólans sagði að samræmt námsmat hlyti að vera aðkallandi. „Það getur ekki verið gott fyrir grunnskólakennara að starfa í þessu umhverfi.“ Jón Pétur bætti við að það þyrfti að greina betur á milli t.d. bókstafanna B og B+ og benti á að meginþorri nemanda fengi B.

98% komust í óskaskólann

Kristún benti á að í vor hafi 98% nemenda komist í þann skóla sem það óskaði sér og 85% í fyrsta val. „Alls voru það 90 nemendur sem fengu ekki það sem þeir vildu. Ég held að þetta hlutfall finnist hvergi annarsstaðar í heiminum.“

Mikilvægt sé að hafa í huga að aðeins 2% nemenda komust ekki í fyrsta eða annað val. „Það hlýtur að vera góður árangur,“ sagði Kristrún og bætti við að hlutfalli hafi verið mjög sambærilegt við síðustu ári. „Það voru örlítið fleiri núna en það skýrist á fækkun á plássum.“

Vita aldrei hvað er bakvið skólaeinkunnina

Bjarni nefndi að samræmdu prófin hefðu á sínum tíma reiknast til helmings á móti skólaeinkunn. Hann sagði að símat væri gott einkunnamat en próf væru það líka. „Ég held að skólaeinkunnirnar séu oft samsettar úr einhverjum stærri prófum en líka mati yfir veturinn en það getur verið mismunandi milli skóla. Við vitum aldrei hvað er á bakvið skólaeinkunna í hverjum skóla.“

Jón Pétur sagði jafnframt að samræmdu prófin ættu að vera í mörgum greinum og nýtast sem hjálpartæki. „Þau eiga ekki að vera stóri dómur yfir einum nemenda heldur hjálpartæki til þess að sjá hvernig hann stendur miðað við aðra nemendur. Í stað þess að allir grunnskólar reyni að finna upp hjólið held ég að hæfnimiðað samræmt próf sé góð lausn.“

Lárus H. Bjarnason rektor MH, Þorkell Diego yfirkennari VÍ og …
Lárus H. Bjarnason rektor MH, Þorkell Diego yfirkennari VÍ og Ingi Ólafsson skólastjóri VÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Kristrún Birgisdóttir og Jón Pétur Zimsen ræddu málin.
Kristrún Birgisdóttir og Jón Pétur Zimsen ræddu málin. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Tekið var við spurningum úr sal.
Tekið var við spurningum úr sal. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Málþingið fór fram í Bláa sal skólans.
Málþingið fór fram í Bláa sal skólans. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Verzlunarskóli Íslands var síðasta vor vinsælastur meðal nýútskrifaðra 10. bekkinga
Verzlunarskóli Íslands var síðasta vor vinsælastur meðal nýútskrifaðra 10. bekkinga mbl.is/Sverrir Vilhelmsson
Nemendur þreyta samræmd próf.
Nemendur þreyta samræmd próf. mbl.is/Eyþór Árnason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert