Hlaupsins mun gæta í viku í Skaftá

Hlaupsins mun gæta næstu vikuna í Skaftá meðan vatn rennur …
Hlaupsins mun gæta næstu vikuna í Skaftá meðan vatn rennur á ný úr jarðvegi. Í lindám neðan við hraunið gæti áhrifanna gætt í á annan mánuð. Rax / Ragnar Axelsson

Þrátt fyrir að jökulhlaupið úr Skaftárjökli hafi dregist mikið saman síðasta sólarhring mun flóðsins væntanlega gæta næstu vikuna í Skaftá og Eldvatni. Þannig á talsvert magn af flóðvatni, sem fór niður í jarðveginn í hlaupinu, enn eftir að renna aftur úr jarðlögunum og halda þannig rennsli árinnar uppi. Þetta segir Snorri Zóphóníasson, sérfræðingur í vatnamælingum hjá Veðurstofu Íslands.

Snorri segir að í hlaupum sem þessum flæði vatn alla jafna víða út fyrir bakka árinnar og lóni þar upp. Það vatn seytlar svo niður í jarðveginn, en þegar rennsli árinnar minnkar og lónin sem mynduðust eru horfin fer þetta vatn að leita aftur út í ána. „Við gerum nú ráð fyrir þessum hala,“ segir Snorri um það uppsafnaða vatn á efri svæðum hlaupsins sem á eftir að koma út í ána að nýju.

Flóðvatn sem hefur runnið í hraunið í Dyngjum, við hringveginn, mun að öllum líkindum gæta í lindalækjum, eins og Tungulæk og Grenlæk, í á annan mánuð að hans sögn. Í fyrri flóðum hefur það gerst að jökulvatn nær niður á yfirborð í Tungulæk, en Snorri segir að miðað við umfang þessa flóðs séu allar líkur á að það gerist einnig í þetta skiptið.

Til að skýra þetta ferli nánar er ágætt að vitna í skýringu á vef Veðurstofunnar. „Vatn lekur að jafnaði úr Skaftá út á Skaftáreldahraun. Hraunið virkar sem sía á jökulgorminn í vatninu. Vatnið kemur fram sem hreint lindavatn undan hraunjaðrinum. Eftir 230 ára síuhlutverk er hraunið orðið fyllt að stórum hluta og yfirborðið farið að þéttast. Allar líkur eru á að næstu daga muni jökulvatn ná fram af brún hraunsins út á Landbrotshraunið sem er undir Eldhrauninu og renna eftir farvegum lindalækjanna. Jökulvatnið mun fyrst koma fram í Tungulæk.

Aðspurður hvort gera megi ráð fyrir því að mikið vatn flæði í lindalækina miðað við stærð hlaupsins segir Snorri enn of snemmt um það að segja. Þannig hafi fallið á rennslinu verið nokkuð skarpt í dag og það gæti minnkað magnið sem fari í lindárnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert