Tortelier nýr aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands

Franski hljómsveitarstjórinn Yan Pascal Tortelier hefur verið ráðinn í stöðu aðalhljómsveitarstjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Tortelier er ráðinn til þriggja ára og tekur við stöðunni í byrjun starfsársins 2016-17 og stjórnar þá upphafstónleikum starfsársins.

Yan Pascal Tortelier er heimsþekktur hljómsveitarstjóri og nýtur mikillar virðingar fyrir störf sín. Tortelier hefur stjórnað mörgum af helstu hljómsveitum heimsbyggðarinnar, þar á meðal Sinfóníuhljómsveit Lundúna, Orchestre de Paris, Konunglegu Concertgebouw-hljómsveitinni, Fílharmóníuhljómsveitinni í Sankti Pétursborg, Hljómsveit La Scala-óperunnar í Mílanó, Fílharmóníuhljómsveitinni í Los Angeles og sinfóníuhljómsveitunum í Boston, Chicago og Montréal. Tortelier hefur um langt árabil starfað fyrir Chandos-útgáfuna og hljóðritað fjöldamörg verk, einkum með BBC-fílharmóníunni. Þar má nefna verðlaunadiska með hljómsveitarverkum eftir Ravel, César Franck, Albert Roussel og Henri Dutilleux.

Yan Pascal Tortelier hefur átt farsælt samstarf við Sinfóníuhljómsveit Íslands allt frá árinu 1998 þegar hann stjórnaði tónleikum á Listahátíð í Reykjavík. Hann kom aftur þegar hljómsveitin var flutt í Hörpu 2012 og nú síðast stjórnaði hann hljómsveitinni á tónleikum í mars síðastliðnum við frábærar undirtektir.

Í frétta tilkynningu Sinfóníunnar um ráðninguna segir Tortelier það mikið gleðiefni að taka við stöðu aðalstjórnanda hennar.

Samvinna mín við hljómsveitina hefur gengið einstaklega vel og nýja tónlistarhúsið gerir starfið allt mun ánægjulegra en ella. Ég nýt þess að búa til tónlist með hljómsveit sem tekur svo vel í hugmyndir mínar, og er sannfærður um að næstu þrjú árin verði afar mikilvæg í sögu og þróun sveitarinnar. Við munum í sameiningu þróa hljómsveitina áfram, og það er mér mikið kappsmál að við getum náð til tónlistarunnenda víða um heim og deilt með þeim hinum einstöku hæfileikum og tónlistargáfum sem Sinfóníuhljómsveit Íslands býr yfir.“

Arna Kristín Einarsdóttir framkvæmdarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands segir aðstandendur hennar afar stolta af því að jafn virtur hljómsveitarstjóri kjósi að vinna með henni sem aðalhljómsveitarstjóri.

 „ Við trúum því að reynsla Tortelier og einstök tónlistargáfa hans muni ýta enn frekar undir þann vöxt og opni jafnframt dyr út í hinn alþjóðlega tónlistarheim þar sem Tortelier hefur skapað sér sterkt nafn."

Tortelier mun koma fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands á sjö tónleikum á næsta starfsári og meðal þess sem prýðir efnisskrár hans eru verk eftir Ravel, Bizet, Elgar, Rakhmanínov, Shostakovitsj, Sibelius og Stravinskíj. Íslenskir og erlendir einleikarar koma fram með Tortelier á fyrsta starfsári hans, meðal annars Víkingur Heiðar Ólafsson og rússneski píanistinn Nikolai Lugansky, fiðluleikararnir James Ehnes og Alina Ibragimova, og danski sellósnillingurinn Andreas Brantelid. Sinfóníuhljómsveitin mun kynna alla efnisskrá starfsársins í maí 2016.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert