Samþykktu nýja hjólreiðaáætlun

Gert er ráð fyrir 30 km af nýjum hjólastígum næstu …
Gert er ráð fyrir 30 km af nýjum hjólastígum næstu fimm árin. Morgunblaðið/Eggert

Ný hjólreiðaáætlun fyrir Reykjavík var samþykkt á fundi borgarstjórnar í gær.  Í henni eru sett fram markmið sem miða að því að auðvelda sem flestum að nýta sér hjólreiðar sem alvöru samgönguvalkost. Markmið eru mælanleg til að hægt verði að fylgjast með árangri áætlunarinnar.

Áætlunin er sett fram sem vefsíða: hjolaborgin.is en þar eru auk markmiða gagnvirk kort og áhugaverðar staðreyndir um hjólreiðar í borginni.

30 kílómetrar af hjólastígum á 5 árum

Samkvæmt frétt á heimasíðu Reykjavíkurborgar felur Hjólreiðaáætlunin í sér framkvæmdaáætlun fyrir næstu fimm árin í Reykjavík en samkvæmt henni er gert ráð fyrir 30 km af nýjum hjólastígum. Ráðist verður í gerð lengri hjólastíga auk þess sem unnið er að minniháttar tengingum sem munu bæta hjólaleiðir og tengja saman leiðir. Á tímabilinu verður m.a. unnið að sjö kílómetra langri hjólaleið meðfram Miklubraut og Hringbraut allt frá Ánanaustum að Elliðaárdal. Þá verður lögð sérstök áhersla á góðar og betrumbættar þveranir hjólaleiða yfir gatnamót. Í því tilliti verður gerð greining á mögulegum valkostum þverana, þ.e. undirgöng, brú eða í plani, m.a. með tilliti til öryggistilfinningar notenda á stígum og jákvæðu viðhorfi fólks til hjólreiða.

Úr 5,5% í 25%

Í nýju hjólreiðaáætluninni er gert ráð fyrir að fylgja markmiðum eftir með mælingum á árangri. Meðal markmiða sem mæla á eru:

  • Hlutdeild hjólandi í öllum ferðum í Reykjavík verði a.m.k. 6% árið 2017 og 6,5% árið 2020.
  • Hlutdeild hjólandi og gangandi í öllum ferðum í Reykjavík verði a.m.k. 25% árið 2017 og 26% árið 2020.  Þetta hlutfall er núna 5,5%.
  • Hlutfall hjólaleiða af heildar stígakerfinu sem eru aðgreindar frá bílum og gangandi verði 6% árið 2017 og 8% árið 2020. Er tæplega 4,5% í dag.
  • Að árið 2020 verði hjólastæði við alla grunnskóla Reykjavíkurborgar fyrir 20% af nemendum og starfsfólki.
  • Hafin verði markviss vinna að því að helmingur hjólastæða við grunnskóla verði yfirbyggð. Í dag uppfylla fimm skólar þetta markmið, 17 skólar eru með hjólastæði fyrir rúmlega 10% nemenda og starfsfólk, en við 15 skóla eru færri hjólastæði.
  • Gerð verði könnun á öryggistilfinningu og viðhorfi fólks til hjólreiða á árinu 2017 og stefnt að jákvæðri þróun á báðum þáttum í könnun árið 2020.

Þarf að forgangsraða betur hjá borginni

Eins og fyrr segir var Hjólreiðaáætlunin samþykkt á fundi borgarstjórnar í gær. Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins flutti þar tillögu um lítilvæga viðbót við áætlunina um að leitast verði við að leggja sérmerktar hjólareinar milli götu og gangstéttar þar sem aðstæður leyfa.

Samkvæmt tilkynningu frá oddvita borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins vísaði meirihlutinn þeirri tillögu til umfjöllunar í umhverfis- og skipulagsráði. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins æögðu fram bókun vegna þeirrar afgreiðslu í lok fundar og greiddu atkvæði gegn þessari afgreiðslu meirihlutans en með hjólreiðaáætluninni.

Halldór Halldórsson, oddviti borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, talaði um forgangsröðun fjármuna í borgarkerfinu í ræðu sinni á fundinum. Sagði Halldór að þessi áætlun myndi líklega ekki nást á árunum 2015-2020 hvað uppbyggingu stíga varðar því það þarf að forgangsraða miklu betur hjá borginni. Benti hann á slæman rekstur borgarinnar og að það vantaði verulega upp á að grunnþjónustu væru sinnt. Nefndi oddvitinn sem dæmi leikskóla sem taka ekki inn börn vegna fjárskorts, skertrar þjónustu við aldraða og biðlista fatlaðra.

Halldór Halldórsson oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Halldór Halldórsson oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert