Ónáðaði konur og var kýldur í andlitið

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Maður sem var að ónáða konur á veitingastað í Austurstræti í nótt var kýldur í andlitið af unnusta einnar þeirra kvenna maðurinn var að ónáða. 

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu voru dyraverðir að vísa manninum út þegar unnustinn sló hann. Þegar lögregla kom á staðinn var árásarmaðurinn farinn af vettvangi og ekki sáust áverkar á andliti mannsins en farið var með hann á bráðamóttöku til frekari skoðunar.

Klukkan rúmlega eitt í nótt var tilkynnt um eignaspjöll við Frakkastíg. Þar hafði verið brotin rúða og spegill við veitingastað. Sá sem lét lögreglu vita hafði séð þrjá menn hlaupa í burt. Smiður var fenginn á vettvang til að setja plötu í stað rúðunnar sem brotnaði.

Tilkynnt var innbrot/þjófnaður á heimili í Hafnarfirði á tíunda tímanum í gærkvöldi. Þar hafði verið spenntur upp gluggi og farið inn. Þjófurinn hafði á brott með sér sjónvarp og fleiri verðmæti.

Skömmu eftir miðnætti var maður handtekinn í Kópavogi grunaður um húsbrot, líkamsárás og fleiri brot. Hann gistir fangageymslur í nótt.

Lögreglan hafði af manni í bifreið á bifreiðastæði í Breiðholti í gærkvöldi en maðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert