„Bát­ur­inn hrein­lega skíðlogaði“

Brandur VE í ljósum logum.
Brandur VE í ljósum logum. Ljósmynd/Tryggvi Sigurðsson

Mannbjörg varð þegar eldur kom upp í smábátnum Brandi VE sem þá var staddur rétt austan við Vestmannaeyjar. Einn var um borð og komst hann að sjálfsdáðum í björgunarbát. Búið er að draga bátinn til hafnar en hann er mikið skemmdur eftir eldinn. 

Í hádeginu barst stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands neyðarskeyti frá smábátnum og skömmu síðar var tilkynnt um neyðarblys á lofti. Var þá þyrla Landhelgisgæslunnar, sem stödd var skammt frá vettvangi, send til aðstoðar auk þess sem nærliggjandi skip og björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargað héldu á staðinn.

Fyrstir á vettvang voru skipverjar á fiskibátnum Frá VE. „Við vorum á leið heim úr veiðiferð þegar við heyrðum kallið og sáum neyðarblys. Í kjölfarið keyrðum við að og var þá maðurinn kominn um borð í björgunarbát,“ segir Tryggvi Sigurðsson, vélstjóri á Frá, í samtali við mbl.is en maðurinn var einnig búinn að klæða sig í flotgalla þegar að var komið.

„Í fyrstu virtist allt í lagi. En svo blossaði upp þessi svakalegi eldur með sprengingu og báturinn hreinlega skíðlogaði. Við náðum svo manninum um borð og var hann alveg heill og fínn,“ segir Tryggvi og bætir við að manninum hafi þó verið nokkuð brugðið eftir atvikið.

Að sögn Tryggva logaði báturinn að framanverðu og telur hann sprenginguna sennilega hafa orðið vegna gaskúts sem þar var. „Báturinn er alveg skaðbrunninn og mesta furða að hann skyldi ekki hafa sokkið því hann er brunninn niður í sjólínu.“

Eldurinn hefur nú verið slökktur og er búið að draga Brand VE til hafnar í Vestmannaeyjum.

Fyrri fréttir mbl.is:

Báturinn líklega ónýtur

Alelda bátur við Vestmannaeyjar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert