Ræða þarf takmörkun tjáningarfrelsis

Eygló Harðardóttir hrósaði ugnu fólki sérstaklega fyrir að draga misrétti …
Eygló Harðardóttir hrósaði ugnu fólki sérstaklega fyrir að draga misrétti fram í ljósið.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, lagði áherslu á hatursorðræðu í upphafsræðu inni á Jafnréttisþing sem nú stendur yfir á Reykjavík Hilton-Nordica.

Sagði Eygló lýðræði ekki eingöngu snúast um kosningarétt og þau sjálfsögðu mannréttindi að geta haft áhrif á samfélagsþróun heldur um að jafna möguleika til þátttöku.

„Orð hafa áhrif og eru til alls fyrst. Ef við leyfum niðurlægjandi og meiðandi tón að grassera í umræðunni fer hann að þykja sjálfsagður og vinnur þannig gegn markmiðum okkar um jöfn tækifæri allra til þátttöku í lýðræðislegri umræðu.“

Minntis Eygló sérstaklega á hatursorðræðu á veraldarvefnum sem hún sagði grafa undan lýðræðinu og kalla á aðgerðir t.d. hvað varðar dreifingu upplýsinga og nektarmynda sem gengur gegn friðhelgi einstaklinga og einkalífsins og elur á kynjamismunun.

„Við þurfum einnig að ræða hvenær getur talist nauðsynlegt að takmarka tjáningarfrelsið og við þurfum að ræða hvernig við getum komið böndum á hatursorðræðu á netinu þar sem gerendur eiga auðvelt með að komast hjá lögum og reglum, til dæmis með því að vista klámsíður í löndum með takmarkaða löggjöf og oftar en ekki fela þeir sig í skjóli nafnleysis.“

„Fjölmiðlar endurspegla ekki raunveruleikann“

Eygló sagði að þrátt fyrir að Ísland væri nú, sjöunda árið í röð, í efsta sæti á 140 landa lista Alþjóðaefnahagsráðsins hvað kynjajafnrétti varðar væru enn ærin verkefni fyrir höndum. Þrátt fyrir viðunandi árangur á sviði stjórnmálanna sé völdum og áhrifum enn mjög misskipt milli kynja.

„Fjölmiðlar gegna hér lykilhlutverki. Þeir eiga að endurspegla fjölbreytileika samfélagsins,“ sagði Eygló en hélt áfram og benti á að samkvæmt rannsóknum sem kynntar verða á þinginu eru mikil kynjaskekkja í fjölmiðlum hvað varðar fjölda viðmælanda, fréttamanna og stjórnenda.

„Fjölmiðlar endurspegla ekki raunveruleikann. Kynjuð og stöðluð framsetning um konur og karla og hlutverk þeirra vinnur gegn markmiði okkar um aukið jafnrétti- það gera líka auglýsingar sem birta snyrtar og afbakaðar ljósmyndir af konum og körlum og bjóða stúlkum og drengjum upp á takmarkað úrval fyrirmynda.“

Sagð Eygló mikilvægt að samfélagið héldi vöku sinni gagnvart því hvernig stöðluðum hlutverkum kynjanna er miðlað enda geti framsetning fjölmiðla haft áhrif á vaxandi klámvæðingu.

Ungt fólk í forgrunni

Hið feminíska siguratriði Hagaskóla í Skrekk hefur vakið mikla athygli á samfélagsmiðlum undanfarið. Stúlkurnar sem stóðu að atriðinu munu taka þátt í jafnréttisþinginu og vakti Eygló sérstaklega máls á mikilvægi ungs fólks í jafnréttisbaráttunni. Sagði hún hafa verið einstakt að fylgjast með þeim krafti sem einkennt hefur umræðu um jafnréttismál á Íslandi á árinu.

„Ungt fólk virðist í mörgum tilfellum verða áþreifanlega vart við ójafnrétti í sínu lífi og það hefur með undraverðum hætti náð að vekja athyli á misréttinu. Ungar konur hafa hvað eftir annað stigið fram og með margvíslegum aðferðum vakið athygli á því valdaójafnvægi sem þeim er gert að lifa við samkvæmt óskráðum reglum samfélagsins. Þær hafa mótmælt og krafist þess að birtingarmyndir kvenna og karla á opinberum vettvangi taki breytingum.“

Sagði Eygló að í nýrri framkvæmdaáætlun stjórnvalda í jafnréttismálum sem lögð verður fyrir Alþingi á þessu löggjafarþingi sé lögð sérstök áhersla á aukna þátttöku drengja og karla og að jafnréttismál taki í auknum mæli mið af breyttum hlutverkum karla á ýmsum hliðum samfélagsins. Lagði hún áherslu á mikilvægi þess að halda áfram að safna saman tölulegum upplýsingum.

„Þekking er undirstaða þess að við getum skilgreint og framkvæmt þau nauðsynlegu verkefni og ýtt til hliðar þeim hindrunum sem verið hafa á leið okkar að réttlátara samfélagi. Þekking er forsenda þess að opinber jafnréttispólitík geti náð markmiðum sínum.“  

Sigurhópur Hagaskóla á sviðið í lokakeppni Skrekks.
Sigurhópur Hagaskóla á sviðið í lokakeppni Skrekks. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert