Tendra Oslóartréð á sunnudaginn

Ljósin verða tendruð á sunnudaginn.
Ljósin verða tendruð á sunnudaginn. Kristinn Ingvarsson

Á sunnudaginn 29. nóvember, þann fyrsta í aðventu, verða ljósin tendruð á Oslóartrénu við hátíðalega athöfn á Austurvelli. Dagskráin hefst klukkan 15.30 og lýkur klukkan 17.00.

Tendrun ljósanna á Oslóartrénu á Austurvelli hefur um áratuga skeið markað upphaf jólahalds í borginni og á sér fastan sess í hjörtum borgarbúa sem fjölmenna á viðburðinn hvert ár. Kynnir er okkar ástsæla Gerður G. Bjarklind.

Jólastjörnurnar Stefán Hilmarsson og Ragnheiður Gröndal syngja jólin inn í hjörtu landsmanna ásamt einvala liði tónlistamanna.

Fyrir hönd Reykvíkinga mun Dagur B. Eggertsson borgarstjóri veita grenitrénu viðtöku frá Khamshajiny (Kamzy) Gunaratnam varaborgarstjóra Oslóar sem afhendir Reykvíkingum tréð að gjöf. Að loknu þakkarávarpi mun hin sjö ára norsk-íslenski Birkir Elías Stefánsson tendra ljósin á trénu.

Heyrst hefur að Skyrgámur, Kertasníkir og Bjúgnakrækir líti við, en þeir hafa stolist í bæinn til að segja börnunum sögur og syngja jólalög ásamt hljómsveit.

Giljagaur er tíundi óróinn í jólasveinaseríu Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra og rennur allur ágóði af sölu hans til starfs í þágu fatlaðra barna og ungmenna. Steinunn Sigurðardóttir & Sigurður Pálsson leggja félaginu lið með túlkun sinni á Skyrgámi – Sigurður Pálsson hefur gert kvæði um Skyrgám og Steinunn Sigurðardóttir hannaði óróann. Reykjavíkurborg hefur frá upphafi stutt verkefnið en óróar Styrktarfélagsins hafa prýtt Óslóartréð auk jólaljósanna.

Eimskip hefur frá upphafi haft veg og vanda að flutningi Oslóartrésins til Reykjavíkur, borgarbúum að kostnaðarlausu.

Dagskrá hátíðarinnar verður túlkuð á táknmáli, heitt kakó og kaffi mun verma kalda kroppa og bílastæðahúsið í Ráðhúsinu verður opið til að auðvelda gestum aðgengi að hátíðarsvæðinu.

Dagskráin er sem hér segir:

15:30 Lúðrasveit Reykjavíkur leikur jólalög við Oslóartréð. Stjórnandi Lárus Halldór Grímsson.

16:00 Gerður G. Bjarklind býður fólk velkomið. Dagskráin verður túlkuð á táknmáli

16:03 Söngvararnir, þau Ragnheiður Gröndal og Stefán Hilmarsson stíga á svið og syngja jólalög ásamt hljómsveit.

16:10 Khamshajiny (Kamzy) Gunaratnam varaborgarstjóri Oslóar segir nokkur orð og afhendir Reykvíkingum tréð að gjöf. Borgarstjóri, Dagur B Eggertsson tekur við trénu og segir nokkur orð og kynnir norsk-íslenskt barn sem tendrar ljósin á trénu.

16:25 Benedikt Gylfason sigurvegari í stóru upplestrarkeppni grunnskólanna flytur kvæði um jólasveininn Skyrgám.

16:30 Stefán Hilmarsson og Ragnheiður Gröndal syngja nokkur jólalög og jólasveinar mæta á svæðið.

17:00 Lúðrasveit Reykjavíkur leikur jólalög við jólatréð.

17:15 Formlegri dagskrá lokið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert