Skammvinn hlýindi fuku í burtu

Hitinn fór í 11 gráður á Austurlandi í nótt
Hitinn fór í 11 gráður á Austurlandi í nótt Sigurður Bogi Sævarsson

Skammvinn hlýindi fóru austur yfir landið í nótt og fór hitinn í 11 gráður á Austfjörðum. Kólnar nú aftur í veðri og lítur út fyrir að þessi kuldakafli muni vara fram í næstu viku, samkvæmt hugleiðingum vakthafandi veðurfræðings á Veðurstofu Ísalands.

Allhvöss eða hvöss suðvestan átt verður á landinu í dag. Skúrir um mest allt land í fyrstu, en um og eftir hádegi má búast við éljum og á það einnig við um höfuðborgarsvæðið. Austanlands ætti þó að vera þurrt fram á kvöld. Vindur snýst í norðaustan átt norðantil á landinu eftir hádegi í dag með snjókomu, fyrst norðvestantil, en dregur úr vindi sunnanlands.

Það kólnar í veðri og má búast við frosti víða um land í kvöld. Á morgun er útlit fyrir ákveðna norðlæga átt með éljum fyrir norðan og austan, en hægari vindur sunnan- og suðvestanlands og léttir til þegar líður á daginn. Kólnar enn frekar í veðri og má búast við allt að 15 stiga frosti í innsveitum annað kvöld.

Veðurspá fyrir næsta sólarhring:

Suðvestan 13-20 og skúrir eða él. Styttir að mestu upp austantil. Dregur úr vindi þegar líður á daginn, víða él um vestanvert landið, en úrkomulítið austantil. Gengur í norðaustan 8-15 m/s norðantil á landinu eftir hádegi með snjókomu, fyrst norðvestantil. Kólnandi veður og frost um nær allt land um kvöldið.

Á föstudag, laugardag, sunnudag og mánudag:
Norðan 8-15 m/s og snjókoma eða él, hvassast norðantil, en hægari vindur og yfirleitt þurrt og bjart sunnantil á landinu. Talsvert frost.

Á þriðjudag:
Breytileg átt og skýjað með köflum, en él á stöku stað. Kalt í veðri.

Á miðvikudag:
Útlit fyrir vaxandi suðaustan og austan átt með snjókomu og hlýnandi veðri, fyrst sunnantil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert