Ofbeldi gegn öldruðum í ýmsum myndum

Sigrún Ingvarsdóttir, félagsráðgjafi, á fundinum í dag.
Sigrún Ingvarsdóttir, félagsráðgjafi, á fundinum í dag.

Ofbeldi gegn öldruðum getur tekið sér ýmsar myndir og meðal annars verður eldra fólk fyrir líkamlegu-, andlegu- og kynferðislegu ofbeldi. Þá eru einnig líkur á því að aldraðir verði fyrir vanrækslu eða fjárhagslegri misbeitingu. Þetta segir Sigrún Ingvarsdóttir, félagsráðgjafi, en hún kom meðal annars fram á málþingi um ofbeldi gagnvart öldruðum í dag.

Í samtali við mbl.is segir Sigrún að á auðvitað sé allt ofbeldi stórt vandamál, jafnvel þótt tíðni í þessum málaflokki sé ekki gífurleg. Fjölgun aldraðra á næstu árum þýði þó að tíðnin muni aukast töluvert ef ekkert verði að gert.

Ekki hafa verið gerðar rannsóknir á þessu máli hér á landi, en Sigrún segir að ef miðað sé við rannsóknir erlendis frá megi gera ráð fyrir að 2-10% af öldruðum sem búi í eigin húsnæði hafi orðið fyrir einhverskonar ofbeldi af hálfu þeirra sem alla jafna eigi að aðstoða þá. Segir hún að ofbeldið sé mun víðtækara en heimilisofbeldi, því hópurinn geti verið veikur fyrir og því átt erfitt með að bera hönd fyrir höfuð sér. Segir hún t.d. að miðað við erlendar rannsóknir séu algengustu tegundir ofbeldis gagnvart þessum hópi andlegs eðlis og vanræksla.

Á Norðurlöndunum er hlutfallið um 3-6% að sögn Sigrúnar, en hún segir að væntanlega sé það svipað hér á landi. Um sé að ræða fólk á aldrinum 65 ára og eldra. Þrátt fyrir að engar formlegar rannsóknir liggi fyrir segir Sigrún að vísbendingar frá öldrunarþjónustunni gefi vísbendingar um vanrækslu hér á landi. Nefnir hún sem dæmi þegar heilabilaðir einstaklingar séu skildir eftir einir í lengri tíma. Þó sé erfitt að ákveða hver sé gerandi í slíku máli, hvort það sé hið opinbera eða aðstandendur.

Sagði Sigrún að aldraðir hefðu einnig sjálfir bent á atriði sem mætti flokka sem kerfislægt ofbeldi gegn þeim. Vísaði hún til orða Gísla Jafetssonar, framkvæmdastjóra Félags eldri borgara í Reykjavík, um að oft væri verið að taka í burtu val og stjórn á lífi aldraðra. Þannig misstu margir í raun sjálfræði við að fara inn á stofnanir þar sem peningagreiðslur færu til viðkomandi stofnunar og í staðinn fengi fólk vasapeninga.

Frá fundinum.
Frá fundinum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert