Þrír á slysadeild vegna hálkuslysa

Það borgar sig að fara varlega í umferðinni vegna hálku …
Það borgar sig að fara varlega í umferðinni vegna hálku - bæði þeir sem eru gangandi og akandi. mbl.is/Golli

Þrír þurftu að leita læknishjálpar á slysadeild Landspítalans í nótt vegna hálkuslysa. Um þrjú datt maður á höfuðið á Skólavörðustíg og var hann fluttur á slysadeild til skoðunar, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Skömmu fyrir fimm var lögreglu tilkynnt um mann sem hefði fallið með hnakkann í götuna í Austurstræti og lægi óvígur eftir. Hann var einnig fluttur á slysadeild til skoðunar.

Skömmu síðar datt sá þriðji en í þetta skiptið í Hafnarstræti. Sá vankaðist og var einnig fluttur á slysadeild.

Um tvöleytið í nótt var ekið á ljósastaur við Suðurgötu og var bifreiðin mikið skemmd en ökufær á eftir. Ökumaður fann til í báðum höndum og ætlaði sjálfur að fara á slysadeild, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert