Viðvörun vegna óveðurs

Óveður í aðsigi.
Óveður í aðsigi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Veðurstofa Íslands hefur sent frá sér viðvörun vegna óveðurs á landinu á morgun, 1. desember.

Veðurvefur mbl.is. 

Viðvörunin er send af vakthafandi veðurfræðingum og fer hér að neðan í heild: 

„Á morgun, 1. desember, ganga skil norðaustur yfir landið með austan stormi og hríðarbyl á öllu landinu, fyrst suðvestantil. Á morgun er því ekkert ferðaveður.

Spá fyrir landið suðvestanvert:
Vaxandi austan átt í nótt. Snemma í fyrramálið má búast við slæmu skyggni vegna skafrennings víða suðvestanlands, þar með talið á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesbraut. Hvessir enn þegar líður á morguninn og fer að snjóa og búast má við mikilli snjókomu fram eftir degi. Síðdegis milli kl 15. og 18. snýst vindur í hægari vestan átt með éljagangi, fyrst á Reykjanesi. Versnandi veðri er spáð austanlands seint.“

Skafbylur upp úr kl. 6 í fyrramálið

Í viðvörun frá veðurfræðingi Vegagerðarinnar segir:

 „Sjónir manna beinast að skilum með snjókomu sem nálgast úr suðvestri í nótt.  Samkvæmt nýjum spám frá í morgun er gert ráð fyrir að stormur verði með skafbyl þegar upp úr kl. 6 í fyrramálið. Takmarkað skyggni og hætt er við að færð geti spillst víða um vestanvert landið.  Nú er útlit fyrir að skilin komist vel inn á land og þá lægir með vægri þíðu fljótlega um og upp úr hádegi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert