Lögbrot eða brjáluð bankastarfsemi

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari.
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það hafa verið gífurleg átök í réttarsalnum. Þetta hefur verið stór slagur og þeir hafa prófað okkur í hverju skrefi í málunum.“ Þetta segir Ólafur Hauksson, héraðssaksóknari, í umfjöllun BBC um bankahrunið og bataskeiðið hér á landi í kjölfarið. Auk Ólafs er rætt við Guðrúnu Johnsen, hagfræðing og höfund bókarinnar Bringing down the banking system, Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði og fyrrum forstöðumann greiningardeildar Kaupþings og dr. Jay Cullen, lektor í fjármálum við háskólann í Sheffield.

Flækjustig eignarhalds píramíða

Guðrún segir í greininni að þegar rannsóknarnefnd Alþingis hafi farið að skoða málefni bankanna eftir hrun hafi niðurstaðan verið að lítið eigið fé hafi verið í flestum fyrirtækjum og mörg þeirra hafi verið flækt í flókið tengslanet þar sem fyrirtæki A átti fyrirtæki B sem átti svo fyrirtæki C og í mörgum tilfellum átti fyrirtæki C svo aftur í fyrirtæki A. Þannig hafi flækjustigið komið í veg fyrir að bankastofnanir vissu í raun hversu mikið eigið fé væri á bak við lánaviðskipti. Til viðbótar hafi þessir eignarhalds píramíðar oft verið í eigu stærstu eigenda bankanna.

Segir hún að ef ekki hefði verið farið í saumana á málunum og komist að því hvað gerðist hafi verið erfitt að breyta hegðun seinna meir og gera samfélagsbreytingar. „Við vitum hvað klikkaði og afleiðing af því er að við gátum hreinsað til hjá okkur frekar fljótlega,“ segir Guðrún.

Guðrún Johnsen.
Guðrún Johnsen.

Mikil átök í réttarsalnum

Ólafur rekur í umfjölluninni þau mál sem hafa komið upp og þá dóma sem hátt settir menn í fjármálageiranum fyrir hrun fengu. Segir hann ferlið hafa verið ein stór átök þar sem sakborningar hafi skorað á réttarkerfið í hverju skrefi ferilsins.

Segir hann að í upphafi hafi menn gert ráð fyrir að finna eitthvað sem tengdi bankann við fallið sjálft, einhvern sem hafi tekið mikla áhættu í kringum aðstæðurnar á bankamarkaðinum á þessum tíma. Hann segir að niðurstaðan hafi aftur á móti verið mál sem teygðu sig mörg ár aftur í tímann.

„Það var erfitt að ákveða hvort um var að ræða lögbrot eða brjálaða bankastarfsemi, en við beindum athygli okkar að því hvernig lán voru afgreidd,“ segir Ólafur.

Íslendingar sættu sig við lakari lífskjör

Flutningur fólks og tekjuskerðing vegna falls krónunnar er meginumfjöllunarefni Ásgeirs í greininni, en hann segir að fyrir hrun hafi margt af best menntaða fólki landsins unnið hjá bönkunum. Eftir hrun hafi það þurft að skapa sér eitthvað, en helsti uppgangsiðnaðurinn hafi verið ferðaþjónusta sem byggi að miklu leyti á ófaglærðu vinnuafli. Þess vegna sé núna innflutningur á vinnuafli meðan margt ungt fólk flytji í burtu.

„Við þurftum að sætta okkur við tapið, sætta okkur við mun lægri rauntekjur og mun lægri lífskjör,“ segir Ásgeir og bætir við að þetta sé eitthvað sem hann telji ólíklegt að önnur lönd mun sætta sig við. Bendir hann á að seðlabankar Bandaríkjanna, Bretlands og í Evrópu hafi brugðist við með peningaprentun. Segir hann að enginn viti hvernig sú peningaprentun mun enda.

Ásgeir Jónsson.
Ásgeir Jónsson. Ómar Óskarsson

Bankarnir enn of stórir

Cullen segir í greininni að staðan á Íslandi sé mjög ólík stöðunni í Bretlandi og Bandaríkjunum. Þannig séu hagsmunir bankanna í Bretlandi jafnvel meiri á þjóðfélagið en þeir voru á Íslandi fyrir hrun. Þessir stóru hagsmunir geri það oft erfitt fyrir pólitískan vilja að gera einhverjar breytingar eða búa til óvin úr stóru bönkunum. Segir hann að mikið þurfi að breytast í Bretlandi sem kalli á miklar fórnir og pólitískan vilja. Hann sjái aftur á móti ekki að neitt slíkt fari í gang.

Að lokum bendir hann á að stóru bankarnir í Bandaríkjunum séu stærri en þeir voru fyrir 2008. „Þeir eru ekki aðeins of stórir til að falla, heldur eru þeir of stórir til að stýra og mögulega of stórir til að lifa af,“ segir Cullen. Þrátt fyrir möntruna um að skattborgarar eigi ekki að borga fyrir klúður bankanna telur hann að þeir séu enn að gera það og að lítið hafi breyst sem geti komið í veg fyrir að það gerist aftur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert