Söfnun til styrktar Reykjadal

Byggja mennskan pýramída með ókunnugum. Mynd frá ratleik Reykjadals sl. …
Byggja mennskan pýramída með ókunnugum. Mynd frá ratleik Reykjadals sl. sumar. mbl.is/Styrmir Kári

„Þetta er í rauninni bara einstakt fyrir fatlað fólk að komast í Reykjadal. Þar höfum við tækifæri á að gera svo margt sem ekki er hægt úti í hinu daglega lífi og að kynnast fólki sem er að takast á við það sama og maður sjálfur,“ segir Gunnar Karl Haraldsson sem glímt hefur við taugasjúkdóm frá barnæsku. Hann hefur farið í sumarbúðirnar í Reykjadal á hverju sumri í um ellefu ár.

Frétt mbl.is - „Ekkert annað í boði en að láta taka fótinn“

Upplifun fyrir alla, styrktarsöfnun Háskóla Íslands fyrir sumarbúðirnar Reykjadal, hófst í vikunni. Reykjadalur eru einu sumarbúðirnar fyrir fötluð börn og ungmenni á Íslandi og dvelja þar árlega um 300 börn á aldrinum 8-21 árs. Nýlega var sumarbúðum fyrir fötluð börn á Stokkseyri lokað og því hefur skapast aukið álag á Reykjadal.

Markmiðið með söfnuninni er að tryggja Reykjadal nægjanlegt fjármagn svo hægt sé að hefjast handa við stækkun á sumarbúðunum til að mæta auknu álagi. 

Gunnar Karl Haraldsson hefur farið í sumarbúðirnar í Reykjadal á …
Gunnar Karl Haraldsson hefur farið í sumarbúðirnar í Reykjadal á hverju ári síðan 2004. Ljósmynd/Úr einkasafni

 „Það er alveg yndislegt að vera í Reykjadal og allt starfsfólkið alveg frábært,“ segir Gunnar Karl. Hann segir að í sumarbúðunum sé í rauninni hægt að gera hvað sem hugann lystir. „Maður er bara að gera það sem manni finnst skemmtilegt, það sem að hentar hverjum og einum í rauninni,“ segir Gunnar Karl.

Í Reykjadal hittir hann félaga sína en allir búa þeir á sitt hvorum staðnum á landinu og því getur verið vankvæðum bundið að hittast yfir vetrartímann. „Þetta er aðallega bara við vinirnir að hittast, ég held að við höfum ekki fylgt neinni dagskrá í Reykjadal síðastliðinn fjögur ár.“

Söfnunin Upplifun fyrir alla er hluti af námskeiðinu Samvinna og árangur hjá meistaranemum við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Þórarinn Hjálmarsson, nemandi í námskeiðinu, segir söfnunina hafa farið vel af stað. „Viðbrögðin eru mjög góð. Það er tekið vel á móti okkur alls staðar og fólk tekur vel í erindi okkar.“

Eitt af liðunum í ratleiknum. Frá hægri: Tinna, Kristófer, Dagný …
Eitt af liðunum í ratleiknum. Frá hægri: Tinna, Kristófer, Dagný Beinta María, Aníta Ásta Kristín, Jakub, Orri Dagur og Ari. mbl.is/Styrmir Kári

Aðspurður segist Gunnar Karl vera ánægður með söfnunina. „Þetta er alveg frábært, maður er alltaf að sjá á hverju ári fólk að safna fyrir Reykjadal til að halda sumarbúðunum gangandi.“

Hægt er að sjá yfirlit yfir alla viðburði söfnunarinnar á Facebook-síðu hennar.

Einnig er hægt að leggja söfnuninni lið með því að hringja í styrktarnúmerin:

  • 901 5001 (1000 krónur)
  • 901 5002 (2000 krónur)
  • 901 5005 (5000 krónur)
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert