Töluverður samdráttur í kjötútflutningi

Íslendingar borða mest af alifuglakjöti en minnst af hrossakjöti
Íslendingar borða mest af alifuglakjöti en minnst af hrossakjöti mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Útflutningur á kjöti dróst saman 19,5% á meðan innflutningur jókst um 1,8% í fyrra. Landsmenn virðast borða meira af alifuglum, svína- og nautakjöti en minna af kinda- og hrossakjöti. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands.

Alls voru framleidd 29.870 tonn af kjöti árið 2015 sem er 1,9% meira en árið 2014. Tæp 10.200 tonn voru framleidd af lamba- og kindakjöti, rúm 8.300 tonn af alifuglakjöti, 6.800 tonn af svínakjöti, 3.600 tonn af nautgripakjöti og tæp 950 tonn af hrossakjöti.

Alls voru flutt út 3.852 tonn af kjöti árið 2015 samanborið við 4.783 tonn árið 2014. Útflutningur á lamba- og kindakjöti nam 2.947 tonnum og dróst saman um 14,3% á milli ára. Útflutningur á hrossakjöti dróst saman um 33% og á svínakjöti um 32%. Alls voru flutt inn 2.563 tonn af kjöti árið 2015 samanborið við 2.517 tonn árið 2014. Innflutningur á nautgripakjöti nam 1.045 tonnum, svínakjöti 598 tonnum og alifuglakjöti 920 tonnum. 

Kjötneysla á íbúa var samtals 83,8 kg árið 2015. Neysla á alifuglakjöti nam 27,6 kg á íbúa og jókst um 2% frá fyrra ári. Neysla á svínakjöti nam 21 kg á íbúa og jókst um 10% á milli ári. Neysla á nautgripakjöti var 14,1 kg á mann sem 1,9% aukning miðað við 2014.  Neysla á lamba- og kindakjöti dróst saman um 3% á milli ára og nam 19,5 kg á íbúa ári 2015. Neysla á hrossakjöti nam 1,6kg á íbúa árið 2015 sem 5% minna en árið 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert